139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

viðbragðsáætlun við fjármálaóstöðugleika.

[14:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að viðbúnaður okkar var fátæklegur þegar ósköpin dundu yfir og á það hefur verið bent af ýmsum sérfræðingum, rannsóknarnefnd Alþingis og fleirum þannig að að sjálfsögðu er rétt og skylt að læra af þeirri bitru reynslu og vera nú betur undirbúinn. Það þarf að hafa meiri viðbúnað og meiri aðgát og greina stöðuna og áhættuna á hverjum tíma og vera alltaf með tilbúna viðbragðsáætlun ef eitthvað er að fara úrskeiðis, annars vegar viðbragðsáætlun gagnvart minni háttar áföllum ef einstakar fjármálastofnanir lenda í vanda o.s.frv., og hins vegar greiningu á kerfislegri áhættu ef fjármálakerfið allt getur riðað til falls og með hvaða afleiðingum það yrði þá. Svarið er já. Það er búið að leggja mikla vinnu í áhættugreiningu, verið er að vinna viðbragðsáætlun og erlendir ráðgjafar hafa verið fengnir að því starfi. Það má segja að hún liggi að nokkru leyti fyrir og það hafi að hluta til verið viðbúnaður af þessu tagi uppi þegar gjaldeyrislánadómar voru í vændum því að þá vildu menn vera undirbúnir ef þeir settu stórt strik í reikninginn varðandi efnahag bankanna og fjármálastofnana.

Sömuleiðis er verið að þróa aðferðafræði á grundvelli umræðna um þjóðhagsvarúðarstefnu, getum við sagt. Verið er að vinna að því af krafti víða í kerfinu og þegar er búið að gera miklar greiningar. Ég vek athygli á því að Fjármálaeftirlitið gerir núna mjög strangar kröfur til banka og fjármálafyrirtækja, lætur þau undirgangast nýjar tegundir af álagsprófum og hefur á grundvelli þess gert áskilnað um mjög sterka eiginfjármögnun banka og sparisjóða. Í skjóli þeirra held ég að við getum sagt að kerfið standi sterkt að vígi í dag þannig að það eigi ekki að vera mikil áhætta í bili í nýendurreistum bönkum og endurfjármögnun fjármálafyrirtækja þar sem kröfur eru gerðar um mjög hátt eigið fé. En ég er sammála hv. þingmanni um að það er vinna (Forseti hringir.) sem þarf að vinna áfram. Svo get ég loks glatt hana ef ég má, frú forseti, svo ég syndgi upp á náðina, með því að það styttist í að skýrsla komi fram um endurreisn stóru bankanna þriggja.