139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

viðbragðsáætlun við fjármálaóstöðugleika.

[14:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég skil orð hans þannig að mat hafi verið gert, þ.e. að metið hafi verið hvað þarf að gera og undirbúin viðbragðsáætlun sem væntanlega er unnið að af hálfu ríkisvaldsins. Við hljótum því að fagna því. Það er mjög mikilvægt að slíkt sé til staðar því að við höfum séð og það er að sjálfsögðu viðurkennt að það voru mistök að vera ekki með slíkt til reiðu þegar allt fór á hvolf haustið 2008.

Það er líka ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir að bankarnir standi mjög sterkt því að það er okkur mjög nauðsynlegt að svo sé. Það er mjög mikilvægt að ráðherrann staðfesti það í ræðustól. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að lokum hvenær við þingmenn megum búast við því að viðbragðsáætlunin verði kynnt þinginu.