139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

aðildarumsókn að ESB og Icesave.

[14:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég missi svefn yfir umsókn hans um aðild Íslands að Evrópusambandinu, enda tel ég mig vita að hæstv. ráðherra nýtur ekki meirihlutastuðnings þjóðarinnar í því máli frekar en svo mörgum öðrum sem hann og hæstv. ríkisstjórn berjast fyrir þessa dagana. Ég ber enga umhyggju fyrir aðildarumsókninni og það yrði mér ákaflega ljúft ef hún yrði dregin til baka, svo það komi fram.

En úr því að við ræddum um 26. gr. stjórnarskrárinnar og þann öryggisventil sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi heyrði ég ekki betur en að hann vildi enn þá standa vörð um þá grein stjórnarskrárinnar eins og hann hefur gert á umliðnum árum og missirum. (Forseti hringir.) En mig langar til að spyrja hann hvort hann hafi skipt um skoðun í málinu núna þegar synjun forsetans liggur fyrir og eins í ljósi yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) áðan um að hann vildi taka 26. gr. til endurskoðunar.