139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

gerð fjárlaga.

[14:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Okkur er flestum ef ekki öllum í fersku minni hvernig fjárlög síðasta árs voru kynnt og allt það klúður sem einkenndi þá framkvæmd. Við höfum núna í kjölfar hrunsins hrundið af stað metnaðarfullu starfi á þingi við að endurskoða starfshætti þess og hefja Alþingi Íslendinga aftur til vegs og virðingar.

Eitt af því sem við höfum rætt er aðkoma Alþingis að gerð fjárlaga hverju sinni en eins og við þekkjum, í fyrra og á undanliðnum árum, hefur framkvæmdarvaldið kynnt Alþingi Íslendinga fjárlög ríkisstjórnarinnar í byrjun október hvert ár.

Við höfum mörg hver talað fyrir því í lengri tíma að um þetta leyti, fyrri hluta ársins, ættu þingmenn fyrst og fremst að miða að því að móta rammafjárlög, að hinir kjörnu fulltrúar á þingi komi að ákvarðanatöku um það hvernig við ætlum að forgangsraða í fjárlögum næsta árs, hvað við ætlum að setja mikla fjármuni í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið o.s.frv. Að því mundu allir þingmenn standa. Á vordögum mundi svo framkvæmdarvaldið fá fram áherslur þingsins til að vinna úr og vinna innan þess ramma. Sá rammi kæmi síðan í endanlegu horfi til þingsins að hausti.

Ég velti því fyrir mér hvort forusta ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að innleiða það verklag á vettvangi þingsins. Þá ætti fjárlaganefnd að vera farin að vinna þá vinnu sem er mjög mikilvæg. Ég tel að við eigum að læra af reynslu síðustu ára og ef menn meina eitthvað með því að alþingismenn og Alþingi Íslendinga eigi að hafa meiri aðkomu að gerð mikilvægra mála er það einmitt fyrsta skrefið sem við ættum að stíga í þá átt. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra sem forustumann annars ríkisstjórnarflokksins hvort ekki standi til að innleiða (Forseti hringir.) þetta ferli á vettvangi þingsins.