139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

gerð fjárlaga.

[14:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Jú, það er einmitt verið að vinna mikið starf í þeim efnum og þess sér auðvitað stað nú þegar að nokkru leyti. Rammar á nafnverði eru birtir með fjárlögum fyrir það ár sem á eftir kemur og í raun og veru liggja þeir fyrir ef menn skoða það. Um það hefur rækilega verið fjallað í greinargerðum tveggja síðustu fjárlagafrumvarpa. Sérfræðingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru hér og gerðu úttekt á kerfinu og komu með ýmsar gagnlegar ábendingar. Síðan hefur fjárlaganefnd rætt það mikið á undanförnum missirum í sínum röðum og það hefur sömuleiðis verið skoðað mikið í fjármálaráðuneytinu. Það er rétt og skylt að betrumbæta vinnubrögð hér, þau voru ekki nógu öguð að ýmsu leyti á árum áður. Það snýr að mörgum þáttum og þar á meðal samskiptum við Alþingi og samráði um það á undirbúningstíma. Við höfum að vísu opnað fjárlagaferlið mjög mikið borið saman við það sem áður var en það er vissulega rétt að það hefur fyrst og fremst verið gagnvart stjórnarflokkunum.

Fjárlagafrumvarpið er vel að merkja stjórnarfrumvarp og eins og hvert annað stjórnarfrumvarp birtir það pólitískar áherslur þannig að eðli málsins samkvæmt þurfa stjórnarflokkarnir að koma nálægt því og kannski nær en þverpólitísk fagnefnd. En þegar kemur að römmum, þegar kemur að grunninum sem fjárlagafrumvarpið byggir á get ég vel tekið undir að það væri æskilegt að efla samstarf og samráð milli fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins um þá vinnu.

Ég tel reyndar að okkur hafi þegar orðið mikið ágengt. Ég nefni rammana aftur. Ég nefni nýjar og hertar reglur um yfirfærslu heimilda. Ég nefni eftirfylgnina og vöktunarlistann. Allt eru það liðir í því að styrkja bæði undirbúning fjárlaganna og síðan framkvæmd og eftirfylgni þeirra. Við höfum sannarlega náð árangri í því að núna tvö ár í röð hefur gengið vel að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Fækkað hefur til mikilla muna þeim fjárlaganúmerum, þeim stofnunum sem farið hafa (Forseti hringir.) umfram fjárheimildir þannig að okkur miðar áfram í þessum efnum þrátt fyrir erfiðar aðstæður.