139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

gerð fjárlaga.

[14:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann nefnir það sérstaklega að ríkisstjórnin leggi fram fjárlög. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að í sveitarfélögum, jafnvel mörgum stærstu sveitarfélögum landsins, taka allir meðlimir í viðkomandi sveitarstjórnum þátt í því að móta fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélags. Við erum að tala um að vinna meira saman og að sem flestir þingmenn fái aðkomu að ákvarðanatöku. Mér heyrist að hæstv. ráðherra ætli sér að halda því í fanginu á ríkisstjórnarflokkunum og hleypa með takmarkaðri hætti minnihlutaflokkunum að. En ég lýk ræðu minni á því að segja að nú ætti fjárlaganefnd Alþingis og fagnefndir þingsins að fjalla um hvernig við ætlum að móta fjárlög næsta árs.

Hverju ætlum við að svara til að mynda heilbrigðisstéttunum í landinu? Hver er t.d. stefna næsta árs varðandi fjárframlög til heilbrigðisstofnana? (Forseti hringir.) Við eigum að vera að vinna þá vinnu hér. Þingmenn eiga að koma meira að ákvarðanatöku sem er því miður nær öll í ráðuneytunum og innan ríkisstjórnarinnar.