139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

erlendir nemar í háskólanámi.

[14:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Erlendum nemendum við Háskóla Íslands hefur fjölgað töluvert á síðari árum og má reikna með að þeir séu nú um 1.500 og þar af 1.000 við HÍ einan. Um 400 eru í skiptiprógrömmum en hinir 600 á eigin vegum. Innan ESB og EES á að vera einn menntamarkaður sem þýðir að flæði nemenda á að vera frjálst. Við fáum að nema á sömu forsendum og innlendir nemendur í löndum ESB og EES og öfugt, nema í Bretlandi þar sem Bretar sömdu á þannig við ESB að þar greiða Íslendingar skólagjöld en breskir nemendur sem stunda nám hér greiða aftur á móti ekkert.

Samkvæmt óformlegri könnun hjá nemendaskráningu Háskóla Íslands á því hversu margir af þeim 600 nemum sem þar eru, eru frá í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins kom í ljós að 245 eru frá löndum utan ESB, 126 frá öðrum löndum, jafnt ESB sem öðrum, en með breskum nemum eru skráðir 278 erlendir stúdentar við HÍ.

Í Svíþjóð hættu yfirvöld að greiða með nemendum utan ESB þegar menn uppgötvuðu að háskólar þar voru að fyllast af erlendum nemendum sem ekki greiddu nein gjöld.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að íslenskir skattgreiðendur eigi að halda áfram að greiða fyrir nám erlendra nemenda hvaðan sem þeir koma. Þeir sem sótt hafa nám í Bandaríkjunum og Bretlandi þekkja þar himinhá skólagjöld og geta borið vitni um þann aðstöðumun sem þeir bjuggu við miðað við þá nemendur sem koma frá þessum löndum og nema á Íslandi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún rétt eða rangt að um þá nemendur sem koma frá löndum utan ESB eigi að gilda sömu reglur í námi við háskóla á Íslandi og gilda um Íslendinga í háskólanámi þar?