139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmönnum um að það er nauðsynlegt að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í beitingu þeirra heimilda sem því verða nú veittar. Það er alveg ljóst hvað sagt er í síðustu málsgrein meirihlutaálits viðskiptanefndar og það stendur. Það þýðir ekki að við séum öll sammála um að það eigi að vera svona, og það þarf þá að breyta þeim lögum en það er allt annað mál. Meðan þau lög eru eins og þau eru á þessi málsgrein auðvitað fyllilega við.

Mér fannst hins vegar, og það er aðalástæðan fyrir því að ég stend hérna, virðulegi forseti, hv. þingmaður ýja að því að með ýmsum ákvörðunum sínum hefði Samkeppniseftirlitið ekki öðlast traust meðal þjóðarinnar. Ég held að hann hafi tekið þannig til orða. Ég vildi gjarnan fá að vita hvaða ákvarðanir það eru. Ég held að það eigi kannski misjafnlega við um okkur, fólk er eins misjafnt og það er margt, og ég verð að segja að Samkeppniseftirlitið er eitt af fáum opinberum stofnunum og stjórnvöldum sem ég hef dáðst að í gegnum tíðina.