139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að þetta mál hefur ekki breyst frá 2. umr. um frumvarpið, meiri hluti viðskiptanefndar leggur til að það verði samþykkt óbreytt frá fyrri umræðu, verða mörg af þeim sjónarmiðum sem ég kem inn á í þessari ræðu við 3. umr. í sama dúr og ég hef áður látið koma fram í þessum sal þegar þetta mál hefur borið á góma. Ég ætla þó að nefna eitt sem ég hygg að ég hafi ekki nefnt áður sem skiptir máli. Það er vísað til þess í almennum athugasemdum og raunar ræðum ýmissa hv. þingmanna að aðstæður í kjölfar efnahagshrunsins og aðstæður í kreppu leiði til þess að það sé rétt að efla samkeppnisyfirvöld og má taka undir það. Það eru ákveðnar samkeppnislegar hættur í því ástandi sem hér hefur skapast í kjölfar efnahagsófaranna haustið 2008.

Þær hættur sé ég m.a. birtast í eignarhaldi fjármálastofnana á fyrirtækjum í fullum rekstri og fullri samkeppni við önnur fyrirtæki eða eignarhaldi hins opinbera, beinu eða óbeinu, á fyrirtækjum sem eru í fullri samkeppni. Ég held að í mjög mörgum tilvikum geti þetta beina og óbeina eignarhald, tökum sem dæmi fjármálafyrirtækjanna sem ráða beint og óbeint mjög stórum hluta fyrirtækja á íslenskum markaði í dag, leitt til mjög ójafnrar samkeppnisstöðu. Að minnsta kosti eru verulegar hættur í því. Það eru verulegar hættur í því að þeir sem ekki eru í fangi bankanna með sama hætti beri skarðan hlut frá borði í þeirri samkeppni sem þeir þurfa að eiga við aðila sem hafa til þess að gera öfluga bakhjarla eins og fjármálastofnanir, opinberar eða hálfopinberar, eða þá bara ríkið sjálft. Ég held að þetta sé atriði sem samkeppnisyfirvöld og raunar við á Alþingi ættum að horfa dálítið betur og meira á á þessari stundu en við höfum gert. Ég er raunar þeirrar skoðunar að það frumvarp sem hér liggur fyrir feli ekki á neinn hátt í sér svör við þeim vandamálum sem þarna eru uppi, alls ekki. Ég held að það snerti ekki það svið, a.m.k. ekki neitt áþreifanlega. Ég held að það væri eðlilegra og heppilegra ef við á þingi sameinuðumst um að styðja samkeppnisyfirvöld í því að beita sér á þessu sviði þar sem fyrirtæki, einkafyrirtæki í mörgum tilvikum, eiga í mjög ójafnri samkeppni við fyrirtæki sem eru í fangi einhverra fjármálafyrirtækja. Ég held að við ættum að skoða þá þætti miklu frekar og hvetja samkeppnisyfirvöld til að beita sér á þeim vígstöðvum. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir okkur því að þar held ég að fjöldamörg vandamál séu uppi og ástæða til að taka til hendinni.

Að sama skapi er ég þeirrar skoðunar að það sé rétt fyrir okkur í þinginu að styðja og efla viðleitni samkeppnisyfirvalda til að sinna þeim verkefnum sem því eru nú þegar falin í lögum, svo sem eftirliti og viðbrögðum gagnvart misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brotum á samkeppnislögunum eins og þau eru í dag. Ég held að það væri gott ef við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu betur rækt það hlutverk sitt að fylgjast með brotum á samkeppnislögunum, brotum sem geta birst í ólögmætu samráði, í misnotkun á markaðsráðandi stöðu o.s.frv. Ég held að það væri gott ef við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu aukið málshraða sinn í þeim efnum þannig að úrræðin yrðu skilvirkari. Ég held að það væri jákvætt. Þetta frumvarp snýst ekki um það, það snýst um eitthvað annað.

Ég tel að það væri líka æskilegt að við á þinginu gætum staðið við bakið á samkeppnisyfirvöldum um að efla málsmeðferð í sambandi við samruna fyrirtækja og slíka þætti, að við gætum eflt samkeppnisyfirvöld þannig að þau gætu með skjótvirkari hætti tekið á samrunamálum eins og þau hafa heimildir til að gera í dag en málsmeðferð hefur því miður stundum tekið langan tíma, öllum aðilum til skaða, bæði almenningi og þeim aðilum sem standa að samrunanum. Ég held að öllum væri til hagsbóta að efla málsvara á því sviði. Þetta frumvarp snýst ekki um það, það snýst um aðra hluti. Það eru mjög mikilvægir þættir sem fela í sér eflingu á störfum samkeppnisyfirvalda sem þetta frumvarp breytir engu um, hjálpar ekkert til.

Lykilatriðið í sambandi við þann ágreining sem hefur komið fram um þetta frumvarp snýst um nýja heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða sem geta verið íþyngjandi, jafnvel afar íþyngjandi í tilvikum þar sem fyrirtæki hafa ekki brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Það hefur ekkert brot átt sér stað, en engu að síður gerir frumvarpið ráð fyrir því að samkeppnisyfirvöldum verði heimilað að beita íþyngjandi aðgerðum, nánast viðurlögum. Við getum kallað það íþyngjandi aðgerð því að ekki er um eiginleg viðurlög að ræða, heldur aðgerðir sem geta verið íþyngjandi og jafnvel meira íþyngjandi en mörg af þeim viðurlögum sem samkeppnislögin fela í sér í dag. Heimildin snýst sem sagt um að heimilt verði að grípa til íþyngjandi aðgerða án þess að nokkur brot séu fyrir hendi. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Ég endurtek það sem ég hef sagt áður við þessa umræðu, ég hef enga samúð með þeim sem misbeita markaðsráðandi stöðu sinni, þeim sem eru sekir um ólögmætt samráð eða önnur slík brot á reglum samkeppnislaga, ég hef enga samúð með þeim. Ég hef hins vegar tilhneigingu til að hafa nokkra samúð með þeim sem reka fyrirtæki og geta lent í því að fá fyrirmæli frá opinberum stofnunum um að þeir eigi að skipta upp fyrirtæki sínu jafnvel þótt þeir hafi ekkert gert af sér. Ég tel að við verðum að fara afar varlega út á þá braut.

Hér hafa verið reifuð ákveðin sjónarmið í því sambandi. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í áliti minni hluta viðskiptanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég tek eindregið undir þau sjónarmið sem þeir leggja áherslu á í sínu máli þar sem þeir vara við þessari heimild. Ég undirstrika sérstaklega að ef það er ætlun löggjafans, eins og nú virðist allt stefna í, að setja ákvæði af þessu tagi inn, ákvæði sem felur í sér að jafnvel verði hægt að brjóta upp fyrirtæki án þess að um nokkurt brot á samkeppnisreglum sé að ræða, er lágmarkskrafa að slíkt ákvæði sé vel formað, vel skilgreint og vel skýrt. Því miður er það ekki staðan núna við 3. umr. þessa máls. Ákvæðið er enn þá allt of matskennt, allt of óljóst og sker sig mjög úr, eins og ég hef bent á í andsvörum, þegar horft er til þess hvaða lagasetningarleið hefur verið farin þegar öðrum opinberum stjórnvöldum eru falin mikil völd og miklar heimildir til að grípa til íþyngjandi aðgerða. Þar er jafnan um það að ræða að þessum völdum hinna opinberu aðila eru settar talsverðar skorður og jafnvel sett ítarlega fram í lagatextanum sjálfum hvenær kemur til greina að beita heimildinni og hvernig það skuli gera.

Það er rétt sem fram kemur, m.a. í áliti meiri hluta viðskiptanefndar, að á þessu sviði gilda margvíslegar reglur hins almenna stjórnsýsluréttar, stjórnsýslulaganna, svo sem rannsóknarregla, andmælaregla og meðalhófsregla. Það er alveg rétt að árétta það, og kannski gott að meiri hlutinn skuli árétta það í nefndaráliti sínu. Það breytir hins vegar ekki því að í annarri löggjöf sem felur í sér völd til opinbers eftirlits eða opinberra stofnana hefur engu að síður verið talið mikilvægt að setja sérstakar málsmeðferðarreglur um það hvaða sjónarmið eigi að hafa í huga til þess m.a. að gæta meðalhófs. Þar hefur verið talið nauðsynlegt að lagaramminn sé skýr þannig að borgararnir viti nokkurn veginn að hverju þeir ganga, hvenær þeir mega eiga von á íhlutun eða íþyngjandi aðgerðum o.s.frv. þannig að þeir viti nokkurn veginn fyrir fram hvernig þeir eiga að haga ákvörðunum sínum til að stíga ekki yfir það strik sem hið opinbera stjórnvald kann að vilja setja í sandinn. Það má segja að strikið í sandinum sé ósýnilegt, svo óljóst er þetta ákvæði eins og það er fram sett.

Ég endurtek að það er gott að það er viðurkennt af hálfu meiri hluta viðskiptanefndar að gæta verði meðalhófs og að öðrum reglum stjórnsýsluréttarins, en breytir engu um þá skoðun mína að það hefði verið réttara, fyrst á annað borð er farið út í það að setja inn þessa íþyngjandi heimild eða valdbeitingarheimild, að setja með skýrari hætti fram í lagatextanum sjálfum við hvaða aðstæður kæmi til greina að beita heimildinni og hvaða sjónarmið hið opinbera stjórnvald, í þessu tilviki Samkeppniseftirlitið, ætti að hafa í huga þegar það grípur til aðgerða á þeim grundvelli. Að mínu mati er ekkert óskaplega mikil frekja af mér eða þeim sem gagnrýnt hafa þetta ákvæði frumvarpsins að gera þá kröfu að það sé sett skýrt fram. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, í þessum orðum mínum felast engar aðdróttanir um það að þeir sem stýra málum hjá samkeppnisyfirvöldum séu líklegir til að fara út í einhverja misbeitingu valds eða beita ofríki á ómálefnalegum forsendum eða eitthvað þess háttar.

Þegar við setjum skýrar reglur um það hvernig t.d. skattyfirvöld fara með sitt vald og hvenær þau beita íþyngjandi aðgerðum erum við ekkert að ýja að því að skattyfirvöld séu eitthvað ómálefnaleg eða sérstaklega líkleg til að misnota vald sitt. Við erum heldur ekkert að ýja að því í lögum um umhverfismál, vinnuverndarmál eða á hverju því sviði þar sem opinbert eftirlit er sett á fót og því faldar heimildir til að beita íþyngjandi aðgerðum þegar við setjum skýrar reglur um meðferð valds. Við látum ekki nægja í skattamálunum að gefa skattyfirvöldum opnar heimildir til að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem gætu orðið til að bæta almannahag. Við mundum, held ég, flest hlæja ef við sæjum slíkt ákvæði í skattalögunum. Samt erum við að setja ákvæði í samkeppnislög sem eru ekkert mjög frábrugðin því. Svo koma þingmenn upp hver á fætur öðrum og segja: Það má ekki gagnrýna þetta því að við treystum því auðvitað að samkeppnisyfirvöld muni bara stýrast af almannahag og hagsmunum neytenda. Þess vegna á engin gagnrýni rétt á sér. Það er auðvitað mjög sérstakt og auðvitað ekki til þess fallið að fá fram málefnalega umræðu um málið. Ég er eiginlega orðinn úrkula vonar um það þegar líður að lokum þessarar 3. umr. að við fáum yfir höfuð málefnalega umræðu um þá þætti sem við höfum gagnrýnt. Það er alltaf svarað með frösum um að menn leggi svo mikið upp úr hagsmunum neytenda, menn vilji gera hvað sem er til að efla samkeppnisyfirvöld og fela þeim ríkari heimildir en það er enginn tilbúinn til að fara ofan í málið og velta því fyrir sér hvernig lagasetningin á að vera þannig að hún nái markmiðum sínum, virki, og um leið að þeim stjórnvöldum sem falið er opinbert vald séu settar ákveðnar (Forseti hringir.) hömlur um það hvernig þau fara með það vald.