139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:07]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri þátt spurningarinnar er ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni, oft er vegagerð brýnasta úrbótin til að byggja upp ferðamannastaði víða um land. Þegar ég talaði um það hér áðan að ég teldi að menn þyrftu að fara í mannvirkjagerð til að fjölga aðgengilegum og fjölsóttum ferðamannastöðum til að dreifa ferðamönnum betur yfir landið og líka yfir árið getur vegagerð auðvitað ekki verið undanskilin. Við, sem er umhugað um uppbyggingu ferðaþjónustunnar, þurfum að horfa meira til þeirra mikilvægu innviða sem þarf að byggja upp víða.

Varðandi Vestfirðina er það alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ef við ætlum Vestfjörðum að vera virkir og öflugir þátttakendur í verkefnum vetrarferðamennsku verða samgöngur akkúrat það mál sem við þurfum að fókusera á til að þeir geti orðið öflugur þátttakandi í því verkefni. Ég tek undir með hv. þingmanni í því. Þetta er nokkuð sem við verðum að horfa á í samhengi. Ég mun ekki liggja á liði mínu við að veita Vestfirðingum dyggan stuðning í því að byggja upp vegakerfi sitt þannig að ferðaþjónustan þar geti orðið aðgengilegri og dafnað.

Varðandi sameiningu Ferðamálastofu og Íslandsstofu er ég ekki þeirrar skoðunar að hún sé fýsileg. Markaðshluti Ferðamálastofu sameinaðist Íslandsstofu en það skýrði líka verkefni Ferðamálastofu betur eins og ég kom inn á áðan. Verkefni Ferðamálastofu eru nú vöruþróun innan lands og stuðningur við hana, en það eru líka leyfisveitingar, öryggismál, gæðamál og annað slíkt sem ég tel ekki eiga erindi inn í Íslandsstofu frekar en gæða- og öryggismál á vegum annarra (Forseti hringir.) atvinnugreina. Ég held að mjög mikilvægt sé að hafa það inni í stjórnsýslustofnun, en Íslandsstofa á að vera lifandi markaðsafl fyrir Ísland og alla atvinnuvegi á Íslandi.