139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:11]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samkeppnishæfnina, raforkuverðið, samgöngurnar og alla þessa heildarmynd sem við köllum oft eftir fyrir landshlutana hefur sú vinna farið fram í Sóknaráætlun 20/20. Von mín er að sú áætlun eigi eftir að skila miklu og þá er verið að samkeyra mismunandi áætlanir og athuga hvaða landsvæði eru veik og hver sterk og hvar menn þyrftu hugsanlega að jafna samkeppnisstöðuna.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við styðjum við þá vinnu sem þar á sér stað í því skyni að fá heildarmynd þannig að samgöngumálin séu ekki bara verkefni eins samgönguráðherra eða einstaka þingmanna heldur séu menn með þetta samantekið á einum stað. Það verður líka verkefni mitt sem ferðamálaráðherra að fylgjast með áætlanagerð á því sviði þannig að það sé samræmi í því.

Það sem ég mælti fyrir áðan var að markmiðið þarna er akkúrat að einfalda sjóðakerfið. Það er markmiðið með þessari ferðamálaáætlun, að einfalda sjóðakerfið, einfalda stoðkerfið í heild sinni fyrir atvinnulífið, fyrir ferðaþjónustuna. Við erum líka að vinna að því eftir öðrum leiðum fyrir atvinnulífið í heild sinni. Það á eftir að skipta mjög miklu máli. Varðandi uppbygginguna horfum við til þess að fara í uppbyggingu á þessum framkvæmdasjóði ferðaþjónustunnar sem nú er til umfjöllunar í iðnaðarnefnd. Hann býður upp á gríðarleg tækifæri. Ég tel ekki að við flækjum styrkjakerfið með honum, heldur verði það þvert á móti gríðarleg innspýting inn í t.d. byggingariðnaðinn. Það verður líka gríðarleg innspýting inn í hönnunargeirann sem á undir högg að sækja núna með tilliti til atvinnu, auk þess að verða mjög mikilvæg lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna í landinu og gera upplifun ferðamannsins ríkari (Forseti hringir.) um leið og við verndum náttúruna. Olíuverðið er ekki bara myndað af sköttunum, heldur ýmsu öðru sem við á Íslandi ráðum ekki við. Ég get farið yfir það seinna.