139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um ferðamálaáætlun 2011–2020. Tillagan er mörgu leyti ágæt og kemur margt fram í henni. Menn setja sér markmið um ferðaþjónustuna um t.d. að auka arðsemi atvinnugreinarinnar og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið o.s.frv., tímasetningar eru og margar góðar upplýsingar.

Mig langar að byrja þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson endaði, að það er oft eins og unnið sé á móti atvinnugreininni annars staðar og þá á ég sérstaklega við skattlagninguna. Mig langar að rifja aðeins upp að þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um aukna skatta voru viðbrögð ferðaþjónustuaðila mjög hörð gagnvart þeim hugmyndum. Mig langar að vitna í einstaka menn, t.d. framkvæmdastjóra KEA-hótelanna, en hann segir að ferðaþjónustan þoli ekki frekari álögur og færir fyrir því mjög góð rök í viðtali við Ríkisútvarpið. Einnig er viðtal við Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair, þar sem hann segir að nýir skattar sem Alþingi hafi samþykkt bitni mjög illa á því fyrirtæki og dótturfélögum þess þar sem starfsmenn hafi reiknað út að um 1 milljarður leggst á það fyrirtæki og viðskiptavini þess. Þar er um að ræða hækkun á umhverfis- eða auðlindasköttum um 50% og nýtt farþegagjald sem leggst á farseðla til að standa straum af kostnaði við eftirlit og viðhald á ferðamannastöðum og síðan gistináttagjald sem leggst á hótelgesti. Þar fyrir utan er verið að hækka skatta á fyrirtækin. Björgólfur Jóhannsson segir að skattahækkanir dragi úr eftirspurn, það sé reynsla hans, og segir að þetta sé slæmt því að ríkisstjórnin hafi stigið mikilvægt skref í vor í landkynningu á ákveðnum verkefnum sem ráðist var í.

Af hverju skyldi ég vera að ræða þetta þegar verið er að mæla fyrir þingsályktunartillögu en ekki frumvarpi hæstv. ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um auknar skatttekjur ríkissjóðs? Það er vegna þess að mér finnst oft og tíðum eins og menn séu að fara hver í sína áttina. Verið er að auka álögur á fyrirtækin en svo á að fara í markaðssókn til að reyna að kynna fyrirtækin eftir að búið er að skattleggja þau til að ná inn tekjum. Af hverju skyldu stjórnvöld vera að reyna að ná inn auknum tekjum? Það er mjög skiljanlegt, það er vegna stöðu ríkissjóðs. En ég held að það sé mjög umhugsunarvert hvort vinsælustu ferðamannastaðir okkar eru yfir höfuð tilbúnir til að taka við auknum ferðamannastraumi eða þoli þann ferðamannafjölda sem kemur þangað í dag. Ég hefði t.d. talið skynsamlegra að skoða mjög vandlega hvort setja ætti gjald inn á hvern ferðamannastað fyrir sig í staðinn fyrir að leggja mjög flókinn skatt á ferðaþjónustufyrirtækin þar sem í fyrsta lagi er greitt eftir því hvaðan ferðamennirnir koma, það er flokkað niður í sex flokka, síðan eftir aldri ferðamanna og loks hvar þeir gista. Þetta er mjög flókið og kostar mikla peninga fyrir ferðaþjónustuna. Komið hefur fram í viðtölum við Ernu Hauksdóttur, sem starfar hjá ferðaþjónustuaðilunum, að þessi aukna skattpíning og flókna skattheimta muni kosta fyrirtækin mikla peninga.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari við hæstv. ráðherra áðan að mér fyndist að menn ættu frekar að fara þá leið að reyna að bæta aðgengi að ferðamannastöðum, hvort heldur er með veglagningu eða einhverju slíku, sem ég tel reyndar mjög mikilvægt. Við vitum að mjög brýnt er að laga vegi á mörgum mikilvægum ferðamannastöðum á Íslandi til að fólk fáist yfir höfuð til að koma þangað. Hægt er að nefna marga staði sem það á við. Ég nefndi sérstaklega í andsvörum áðan sunnanverða Vestfirði og Látrabjarg. Það er hægt að telja endalaust upp, Hveravelli og það svæði allt saman. Það er líka hægt nefna Uxahryggi þar sem ferðaþjónustuaðilar hafa barist fyrir því í mjög langan tíma að fá þann veg bættan til að geta haldið áfram að byggja þar upp. Ég teldi skynsamlegt að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn skoðaði það mjög vel hvort ekki væri hægt að fara í ákveðið átak í vegagerð á fjölsóttum ferðamannastöðum til að bæta aðgengi að þeim, bæði hvað varðar öryggi og slíkt.

Það er líka annað sem stendur ferðaþjónustunni fyrir þrifum, t.d. á þeim svæðum sem ekki er heitt vatn, það er náttúrlega raforkuverðið sem er orðið mjög hátt. Það mismunar búsetu í landinu, það á ekki eingöngu við ferðaþjónustuna heldur líka íbúana á þessum svæðum. Það kemur mjög skýrt fram þegar maður ræðir við fólk og hefur séð reikninga, reyndar býr maður við það sjálfur að þurfa að greiða þrisvar sinnum meira fyrir að kynda húsið sitt en fólk sem býr á suðvesturhorninu eða þar sem fólk nýtur hitaveitu, sem er reyndar á mörgum öðrum stöðum á landinu.

Þetta er farið að hafa mikil áhrif á búsetuskilyrði fólks, sérstaklega þegar búið er að hækka alla skatta og álögur og atvinna hefur dregist saman. Þetta er orðið mikið áhyggjuefni. Það eru mörg dæmi um að fullorðið fólk, t.d. í hinum dreifðu byggðum sem býr við þessar aðstæður, er að lokast í fátæktargildrum vegna þess að það getur hugsanlega ekki selt húsin sín vegna efnahagsástandsins. Það kyndir mjög stór hús og hefur takmarkaðar tekjur eftir að búið er að skerða ellilífeyri mikið á undanförnum mánuðum.

Ég tel mjög mikilvægt og hvet hæstv. ferðamálaráðherra, eins og við köllum hana í þeirri umræðu sem hér á sér stað, að skoða það sérstaklega hvort þetta muni ekki geta haft veruleg áhrif — og það hefur það. Ég veit hins vegar að hæstv. ferðamálaráðherra er frekar hófsöm í skattpíningu, hefur hugsanlega aðrar skoðanir en margir kollegar hennar í hæstv. ríkisstjórn. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega, ekki síst gagnvart hækkunum á olíu og bensíni þó að þær séu að hluta til komnar út af óvissuástandi úti í heimi, en engu að síður er búið að hækka þessa skatta mjög mikið. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á getu fólks til að ferðast, t.d. hversu langt það fer, það segir sig sjálft. Fólk hugsar sig um áður en það fer vestur á firði eða austur á land, fer kannski frekar vestur á Snæfellsnes eða ferðast um Suðurland. Það gefur alveg augaleið. Það munar engum smáupphæðum. Það getur gert það að verkum að sumt fólk hefur jafnvel ekki efni á að heimsækja þá staði sem eru lengst í burtu. Það skýtur því ansi skökku við þar sem eitt af markmiðum þingsályktunartillögunnar er einmitt að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að menn geri átak í því að vera ekki að skattpína ferðaþjónustuna allt of mikið.

Ég vil líka gera það að umtalsefni rétt í lokin á ræðu minni, tíminn líður hratt, að vitnað er í áherslur landshlutanna sem er góðra gjalda vert. Þar kemur einmitt fram að taldir eru upp ákveðnir staðir á Vesturlandi og sagt að þar séu tækifæri tengd þjóðgarðinum Snæfellsjökli sérstaklega. Tekið er fram að Snæfellsnes sé eina svæði landsins sem hlotið hefur alþjóðlega umhverfisvottun Earth Check samtakanna, áður Green Globe. Mér er að sjálfsögðu fullkunnugt um það. En þar sem þessi ríkisstjórn hefur kennt sig við mikla náttúruvernd hefur það nú ekki verið gagnvart þessu verkefni, þeir sem sitja í núverandi ríkisstjórn, vegna þess að á næsta ári er t.d. Snæfellsjökulsþjóðgarður tíu ára. Það hefur aldrei verið lagt neitt stofnframlag í þann þjóðgarð, aldrei, ekki ein einasta króna fyrr en á síðasta ári að fjárlaganefnd tók sig til og veitti 10 millj. kr. styrk til þjóðgarðsins til að byggja upp og bæta aðgengi eingöngu til ferðamannastaðanna. Það þýddi að í raun og veru var unnið fyrir margfalt þá upphæð, bæði í sjálfboðavinnu og öðru, og er þar margt til fyrirmyndar sem það fólk sem þar var fremst í flokki vann og góð verk hafa verið unnin. Eitt af því er t.d. uppbygging á vatnshelli sem var mjög mikið verk og mikil sjálfboðavinna lögð í og hæstv. umhverfisráðherra fór vestur síðasta sumar og vígði hann. Það er til mikillar fyrirmyndar. Þeir sem fara ofan í hellinn greiða fyrir það sérstakt gjald. Mér hefur verið tjáð af þeim aðilum sem sjá um að rukka það inn að ekki einn einasti ferðamaður, hvorki íslenskur né erlendur, gerði athugasemd við það að greiða gjald af því að skoða þann stað.