139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

rannsókn á stöðu heimilanna.

314. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn á stöðu heimilanna sem ég flyt ásamt með 14 hv. þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum. Þetta frumvarp var lagt fram þann 30. nóvember 2010 og um svipað leyti var lagt fram frumvarp frá hæstv. ríkisstjórn, þann 18. nóvember, þ.e. 12 dögum áður, til að leysa sama vanda en þó á nokkuð annan og eiginlega gjörólíkan hátt.

Þá var lagt fram frumvarp 11. nóvember, 206. mál, frá ríkisstjórninni um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu sem var svo afgreitt sem lög nr. 151/2010 sem tók á dómi Hæstaréttar um gengistryggðu lánin.

Það hefur einkennt alla umræðu um stöðu heimilanna að menn vita eiginlega ekki neitt. Nýjustu upplýsingar sem liggja fyrir núna eru skattframtöl í lok árs 2009 og síðan staðgreiðsluupplýsingar úr staðgreiðsluskrám þannig að nýjustu upplýsingarnar um heildarstöðu heimilanna eru þetta gamlar, orðnar rúmlega eins árs. Og það vantar illilega allar upplýsingar um stöðu leigjenda.

Nú eru þessar upplýsingar allar til meira og minna á tölvutæku formi. Röskur forritari gæti safnað þeim saman á þrem, fjórum vikum ef hann færi eftir kennitölum. En þar rekst hann náttúrlega á Persónuvernd, þetta eru afskaplega viðkvæmar upplýsingar sem varða fjárhagslega stöðu heimilanna. Þegar maður fer að skoða hverjir gætu framkvæmt svona upplýsingasöfnun frá öllu kerfinu, frá lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði, launagreiðendum, skattinum o.s.frv., kemur upp í hugann fyrst og fremst einhver aðili sem er hlutlaus og það er í mínum huga Hagstofan. Hún safnar svona upplýsingum alla daga, reyndar ekki eins persónugreinanlegum, og hún er ekki beinn hluti af ríkisvaldinu, er ekki ráðuneyti, ekki framkvæmdarvald.

Þetta frumvarp gengur út á að þessum upplýsingum verði strax safnað saman, að Hagstofan safni saman upplýsingum frá öllum þeim aðilum sem eru með upplýsingar um hag heimilisins. Það ákvæði er af ásettu ráði haft opið þannig að ef menn komast að því þegar líður á rannsóknina að það vanti einhverjar upplýsingar, t.d. um leigjendur, er hægt að afla þeirra annars staðar. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að Hagstofan geti framkvæmt úrtakskönnun til að fylla upp í upplýsingar um stöðu heimilanna.

Nú má segja um lögin sem ég nefndi áðan og tóku á vandanum sem myndaðist þegar Hæstiréttur felldi dóm sinn 16. júní um gengistryggðu lánin að mjög mikill vandi hafi myndast og hann er á vissan hátt ekki leystur enn. Enn vita ekki allir út í hörgul hvað þeir eiga og hvað þeir skulda, aðallega ekki hvað þeir skulda. Bankarnir vita ekki hvað þeir eiga. Þeir vita það reyndar sífellt betur og betur og eftir að þessi lög voru sett, lög nr. 151/2010, liggur miklu betur fyrir hvað einstaklingar skulda og hvað bankarnir eiga, hvort fjármálakerfið stendur undir sér eða ekki. Þó er það ekki alveg ljóst, enn falla dómar í Hæstarétti sem breyta stöðunni allverulega frá viku til viku. Þess vegna hefðu svona upplýsingar verið mjög nauðsynlegar, a.m.k. á sínum tíma, og það er spurning sem ég ætla hv. nefnd að fjalla um, þ.e. hvort enn sé nauðsynlegt að setja svona lög.

Það frumvarp sem hér um ræðir gengur út á það að Hagstofan safni ársfjórðungslega öllum þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að fá yfirlit um stöðu heimilanna, hjá opinberum aðilum, fjármálastofnunum, lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum, háskólum og lánasjóðnum, og þetta verði keyrt saman eftir kennitölum og síðan dulkóðað með dulkóðunarlyklum sem eru nægilega öruggir.

Það er sérstakt ákvæði í þessu sem er nýmæli, að gögnunum skuli safnað á einn stað hjá Hagstofunni undir eftirliti Persónuverndar og þau dulrituð þar með þremur dulritunarlyklum. Skal hver útbúinn í tvíriti og skulu hagstofustjóri og staðgengill hans geyma eitt par af dulritunarlyklum, framkvæmdastjóri Persónuverndar og staðgengill hans eitt par og framkvæmdastjóri Fjármálaeftirlitsins og staðgengill hans eitt líka. Það er ekki hægt að opna gögnin nema allir þrír lyklarnir komi saman og þá er hægt að bæta við eða eyða gögnum eða vinna úr skránni það sem talið er nauðsynlegt að vinna. Aðallega gengur það út á að ekki sé hægt að bæta við gögnum, það þarf að dulrita þau áður en þau eru sett inn í kerfið. Þar liggur vandinn og þá á að nota þessa þrjá lykla. Mér skilst að það sé komið það mikið öryggi í þessa lykla að jafnvel upplýsingar um kjarnorkuvopn séu geymd á netinu á þessu formi eftir að búið er að dulrita þau. Það er svo erfitt að brjóta lyklana, nánast útilokað.

Með því að hafa þessa þrjá óháðu aðila til að gæta þessara lykla ætti að nást nokkuð mikið traust til að þessar upplýsingar fari ekki á flakk. Þær verða náttúrlega óskaplega mikilvægar þegar hægt er að sjá hvað hver einstaklingur á, hvað hann skuldar, hvað hann hefur í tekjur og allar upplýsingar um hann sem eru nauðsynlegar til að átta sig á stöðu heimilanna.

Það eru mjög stíf og ströng refsiákvæði í lögunum ef frumvarpið verður samþykkt, þ.e. sá sem brýtur trúnað eða leynd sem lögin áskilja skal sæta fangelsi allt að tíu árum. Þetta er haft mjög strangt vegna þess að þessar upplýsingar mega alls ekki fara á flakk.

Nú er spurning hversu brýnt menn telja að svona upplýsingar komi fram. Ég held að síðast í gær hafi verið kvartað í blöðunum yfir því að menn vissu í rauninni ekkert um leiguverð í landinu. Það er afskaplega bagalegt. Stór og vaxandi hópur fólks er á leigumarkaði og í rauninni veit enginn hvað þetta fólk borgar í leigu og hvernig sú leiga er t.d. verðtryggð. Hún er yfirleitt verðtryggð og það gleymist í allri umræðunni. Það hefur lítið verið fjallað um þennan hóp og það er alveg með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn sem telur sig velferðarstjórn skuli ekki sinna þeim sem ekki eiga húsnæði og eru á leigumarkaði. Hún hefur aðallega verið í því að sinna þeim sem eiga húsnæði og skulda og gleymir þessum hópi. Svo gleymir hún líka öðrum hópi, þeim sem er tiltölulega vel settur. Ég held að um 27 þús. heimili af 120 þús. eigi skuldlausa fasteignina sem þau búa í. Það er afskaplega jákvætt, þau skulda sem sagt ekki í húsnæðinu, það getur verið að þau skuldi eitthvað fyrir utan það.

Þetta frumvarp tekur dálítið öðruvísi á málum en frumvarp sem ríkisstjórnin flutti þann 18. nóvember 2010 og liggur enn í hv. efnahags- og skattanefnd. Það er dálítið undarlegt, það hefur ekki verið rætt í þeirri nefnd — ég sit í henni — hvort þetta frumvarp skuli slegið af eða hvort eigi að afgreiða það. Það bara liggur þarna í dái. Það gengur út á það að ráðherra safni þessum gögnum frá tilteknum aðilum, Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna, ríkisskattstjóra og Hagstofu Íslands og síðan frá Vinnumálastofnun og Þjóðskrá, Fjársýslu ríkisins, sveitarfélögum og jöfnunarsjóði, Tryggingastofnun ríkisins og umboðsmanni skuldara. Þarna eru taldir upp þeir aðilar sem eiga að veita upplýsingar og ef menn ætla að samþykkja slíkt frumvarp þyrftu menn í hv. nefnd að sjálfsögðu að kanna hvort þetta væri fullnægjandi til að fá góða mynd af stöðu heimilanna. Það getur vel verið að menn gleymi einhverju atriði eins og sjúkrasjóðum — ég benti á það í umræðunni — eða öðrum atriðum sem eru óopinber en samt lögbundin. Sjúkrasjóðir, stéttarfélög og fleiri aðilar bæta fólki alls konar tjón. Sjúkrasjóðirnir veita t.d. styrki til kaupa á gleraugum og annars slíks sem ætti að koma fram því að það lagar þá stöðu viðkomandi heimilis.

Það var dálítið erfitt að hafa ekki það frumvarp sem ég mæli hér fyrir til samanburðar við vinnsluna en ég tel mjög mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd fari í gegnum bæði þessi frumvörp og annaðhvort afgreiði þessi mál hratt og vel eða sleppi því. Annaðhvort liggur á þessum upplýsingum eða það liggur ekki á þeim. Ef það liggur ekki á þeim getur það alveg beðið þess vegna í tvö, þrjú ár. Það er núna sem við erum að leysa stöðu heimilanna en ekki eftir hálft eða eitt ár. Það þyrfti að taka ákvörðun um það hvor leiðin væri betri og taka síðan ákvörðun um hvort það væri gott að láta hæstv. ráðherra geyma þessa skrá. Ég teldi það verra, og það væri betra að Hagstofan geymdi hana. Alveg sérstaklega er ég hlynntur þeirri lausn að vera með þessa dulritunarlykla sem eiga nánast að útiloka það að þessar upplýsingar fari eitthvað öðruvísi en á dulkóðuðu formi.

Mér og öðrum flutningsmönnum finnst ekki síður mikilvægt núna, frú forseti, að fá upplýsingar um stöðu heimilanna. Þó að þetta frumvarp sé rætt tveimur og hálfum mánuði eftir að það er lagt fram mætti vinna það á kannski tveim, þremur vikum ef nefndin fengi góða umfjöllun, umsagnir og annað slíkt og samþykkja það sem lög. Þá þyrfti að breyta tilteknum dagsetningum. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að gagnanna sé aflað miklu hraðar en gert er ráð fyrir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem menn ætla að dóla sér við í einhver ár. Það leggur ekki neitt til umræðunnar og lausnar á vanda heimilanna núna að vita eftir tvö, þrjú ár hver staðan var. Það er núna sem við þurfum þessar upplýsingar, við þurfum að vita núna um stöðu þeirra heimila sem verst eru sett og hversu mörg heimili eru í góðum málum, eins og ég tel að þau heimili sem skulda ekki neitt í húsnæði sínu séu. Þau ættu flest að vera í góðum málum. Við vitum ekki hversu mörg heimili eru leigutakar. Ég tel að sum séu, og hef reyndar heyrt af einstökum dæmum, í mjög slæmri stöðu, frú forseti, og hæstv. ríkisstjórn sem kennir sig við velferð hefur ekkert sinnt þeim hluta fjölskyldna.

Ég legg til að að lokinni umræðu verði þessu máli vísað til hv. efnahags- og skattanefndar sem ég vonast til að taki hratt og vel á þessum málum, annaðhvort afgreiði þau og fái þessar upplýsingar og það fljótt að hægt sé að taka á vanda heimilanna eða hreinlega hætti við málin og geri bara eins og menn hafa gert á fleiri sviðum varðandi vanda heimilanna.