139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í rannsóknarskýrslu Alþingis var felldur áfellisdómur yfir stjórnsýslunni. Þingmannanefndin sem vann úr rannsóknarskýrslu Alþingis felldi líka dóm yfir stjórnsýslunni. Tillaga var lögð fram í þinginu um að m.a. þyrfti að bæta stjórnsýslu stofnana og ráðuneyta. Þingmenn greiddu tillögunni atkvæði 63:0.

Nú vill svo til að í þinginu hefur verið til umræðu sameining landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar. Ég ætla ekki að fella dóm um það hvort slík sameining er góð eða slæm. Hitt er ljóst að fjárhagslegur ávinningur slíkrar sameiningar hefur ekki komið fram og hefur ekki verið reiknaður út. Það er miður. Hins vegar er þetta frumvarp um sameiningu landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar ekki orðið að lögum. Það er enn til umræðu í heilbrigðisnefnd en þangað berast þær fréttir, frú forseti, að stjórnsýslan sé þegar farin að vinna að ráðningu starfsmanna samkvæmt frumvarpi sem ekki er orðið að lögum.

Frú forseti. Ég hélt að við hefðum eitthvað lært um slælega stjórnsýslu og hvernig við ætluðum að vanda vinnubrögð, en ef forstjórar stofnana sem ekki eru orðnar að stofnunum og fyrrverandi forstjórar stofnana sem eru að renna saman í eitt eru þegar farnir að vinna að ráðningum fólks vegna frumvarps sem ekki er orðið að lögum í þinginu er stjórnsýslunni enn jafnábótavant og henni var þegar rannsóknarskýrsla Alþingis kvað upp sinn dóm, og þingmannanefndin (Forseti hringir.) sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis gerði slíkt hið sama.

Frú forseti. Við slíka stjórnsýslu (Forseti hringir.) verður ekki unað.