139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hér að ummælum hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þar sem hún segir að samgöngumál séu ekki atvinnumál. Það er auðvitað mjög sérstakt að heyra, ekki síst frá landsbyggðarþingmanni, og sýnir mikið skilningsleysi. Það er auðvitað gríðarlega mikil atvinna sem skapast í kringum bættar samgöngur, þetta er grundvöllur atvinnusköpunar á landsbyggðinni og margir hafa vinnu við viðhald og vegagerð í landinu.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, við samþykktum hér viðbótargjaldtöku á sínum tíma, í smáum upphæðum. Það var talað um mjög lágar upphæðir og sjálfur sagði ég í þeirri umræðu að þetta mætti alls ekki verða landsbyggðarskattur, skattur á þá sem búa hér fyrir utan höfuðborgarsvæðið sérstaklega. Það var á þeim forsendum sem ég samþykkti það frumvarp sem var hér til umræðu á þeim tíma, en forsendurnar hafa breyst, virðulegur forseti. Þær eru ekkert þær sömu í dag, það er búið að hækka skatta og álögur á heimili landsins svo um munar, m.a. með hækkun bensíngjalds. Það verður ekkert gengið lengra í þeim efnum. Það er aftur á móti alveg ljóst að við verðum að fara í þessar framkvæmdir og eftir að það slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóði um fjármögnun hefur ríkisstjórnin gefið það út að þessar framkvæmdir muni fara af stað og verða fjármagnaðar með útgáfu ríkisskuldabréfa.

Ég held að það sé í sjálfu sér bara eðlilegt mál og við skulum skilja þar á milli, við skulum koma þessum mikilvægu framkvæmdum af stað, koma þeim í gang og fara síðan í umræðuna um það hvernig við ætlum að skattleggja heimilin í landinu til að standa undir þessu í framtíðinni. Lengra verður ekki gengið í þeim efnum, virðulegi forseti. Og það er ekki afsökun þegar hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson segir að peningar séu ekki til vegna þess að þessi sami ráðherra var tilbúinn að skuldsetja ríkissjóð um 500 milljarða í Icesave-samningunum. Þessi ríkisstjórn vildi (Forseti hringir.) skuldbinda ríkissjóð um 500 milljarða og átti að borga af því 60–70 milljarða árið 2016. Við erum að tala hér um smánarupphæð í því sambandi. (Forseti hringir.) Við getum vel staðið undir því að setja þetta af stað og getum síðan rætt skattlagninguna á þeim tíma sem við höfum þar til að greiðslum (Forseti hringir.) kemur.