139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það vakti þó athygli mína þegar hann sagði í lokin að hann væri runninn út á tíma en ekki að ræðutími hans væri á enda. Ég veit ekki hvort það boðar eitthvað á næstu klukkutímum eða dögum en það mun skýrast. Hann veit svo sem mína skoðun, að fegnastur yrði ég ef þessi ríkisstjórn færi frá, en hvað um það.

Mig langar aðeins að staldra við það sem hæstv. ráðherra kom inn á í lok ræðu sinnar varðandi tekjutengingu sekta. Það er dálítið umhugsunarvert. Sumir sjá hugsanlega einhverja kosti við það þó að ég sjái þá ekki sjálfur, ég sé þegar ýmsa ókosti við það. Hæstv. ráðherra sagði að það kæmi lítið við þá sem hefðu háar tekjur og meira við þá sem hefðu lágar, það gefur augaleið. Yrði tekið tillit til tekna maka ef þessu ákvæði yrði beitt? Yrði tekið tillit til þess ef lágtekjumaður lenti í umferðarlagabroti og maki hans hefði háar tekjur?

Síðan kemur fram í frumvarpinu að tekið yrði tillit til skattframtals ársins á undan. Hvað ef viðkomandi hefur lækkað í launum í millitíðinni og jafnvel misst vinnuna? Hvernig yrði það meðhöndlað? Mér finnst vera töluvert af flækjustigum í málinu eins og það er sett upp. Það kemur reyndar skýrt fram í frumvarpinu sjálfu og einnig hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og fleirum. Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið hugsi yfir þessu. Ég hefði viljað fá viðbrögð ráðherra við tekjutengingu við maka og hugsanlega ef viðkomandi aðili hefur lækkað í launum eða jafnvel verið orðinn atvinnulaus þegar hann fékk umferðarlagasekt.