139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra notaði andsvarið til að bæta við fyrri ræðu sína vegna þess að tími hans var á þrotum. Ég sá hins vegar strax fyrir mér tvenns konar flækjustig sem ég óskaði eftir skýringum á frá hæstv. ráðherra. Ég vona að hann skýri það þá í seinna andsvari sínu. Það varðar annars vegar tekjutengingu maka og hins vegar, af því að miðað er við skattframtal síðasta árs, hvernig tekið yrði á því ef maður sem fær sekt fyrir umferðarlagabrot hefur annaðhvort lækkað í launum eða misst atvinnuna.

Annað sem ég tók eftir í ræðu hæstv. ráðherra var breytingin varðandi ökuskólana. Hæstv. ráðherra sagði að þeir væru lyftistöng í ökunámi og mundu gera það markvissara. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað að í ökunáminu sem kallar á þær breytingar? Úti á landsbyggðinni er ekki jafnmikill markaður og á höfuðborgarsvæðinu, þar er starfandi einn ökukennari kannski á tvö, þrjú þúsund íbúa. Þeir ökukennarar eru einyrkjar og ég hef ekki orðið var við að nemendur hjá þeim hafi verið neitt síðri en annarra kennara. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað kalli sérstaklega á þessar breytingar.

Ég sé fyrir mér hvað mundi gerast: Ökukennarar á þessum stöðum mundu koma sér saman um að stofna sameiginlegan skóla sem mundi síðan ekki breyta neinu í umhverfinu, um kennsluna. Þeir stofnuðu bara eitt stykki hlutafélag, ættu allir aðild að því og héldu svo áfram starfinu nákvæmlega eins og það er í dag. Það gæti orðið íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar og þá sem sinna ökukennslu þar ef fyrirkomulagið væri með þeim hætti. Þess vegna spyr ég ráðherra: Er eitthvað sem kallar á breytingar? Er eitthvað að í dag (Forseti hringir.) sem þarf að breyta?