139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi tekjutenginguna. Það eru ekki hugmyndir um að tengja þetta tekjum maka. Litið er á hvern einstakling sem sjálfstæða rekstrareiningu, getum við sagt, og viðmiðunin eru tekjur og skattframtal undangengins árs.

Varðandi ökuskólann eru það hugleiðingar sem eiga fullkomlega rétt á sér. En við skulum ekki gleyma því að það er sameiginlegur ásetningur frumvarpssmiðanna og þeirra sem sinna ökukennslu í landinu að finna leiðir til að bæta námið og færa það inn í almennt menntakerfi með því að gera það einingahæft. Þá var hugmyndin sú að að tengja ökukennsluna ökuskólum í ríkara mæli en verið hefur.

Jafnframt hafa ökukennarar viðrað þær áhyggjur sem hv. þingmaður nefnir og snúa að sjálfstæði þeirra. Menn hafa þá vísað í aðstæður eins og hv. þingmaður gerir og ég geri ekkert lítið úr því. Ég hef hins vegar trú á því að í sameiningu muni menn finna ásættanlegan farveg hvað þetta snertir vegna þess að markmiðin eru alveg skýr: Menn vilja efla þetta nám, menn vilja bæta það, menn vilja gera það vandaðra. Menn vilja færa það inn í almennt menntakerfi en jafnframt vilja þeir huga að sjálfstæði ökukennarans. Það er jafnvægiskúnst sem ég hef engar áhyggjur af að menn ráði ekki fram úr.