139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið er játandi. Þetta er eiginlega spurning um á hvorum endanum maður byrjar. Er þetta afsláttur sem hinum snauða, hinum tekjulitla, er veittur eða er verið að refsa hinum tekjuháa? Í reynd er verið að gera hvort tveggja, það fer eftir því hvernig við skilgreinum hlutina. Eins og ég gat um áðan erum við að hækka sektir. Við erum að færa sektir upp og þar með taka meira af þeim sem hafa eitthvað handa á milli en við hlífum þeim sem minnst hafa handa á milli og veitum þeim afslátt. Þetta er eiginlega spurning um hvernig við skilgreinum hlutina.

Ég er mjög áhugasamur um þessa nálgun, einfaldlega vegna þess að sektir eru hugsaðar til fælingar, að fólk aki ekki of hratt eða brjóti ekki af sér í umferðinni og sé minnugt þess að ef slíkt gerist eigi það á hættu að fá refsingu, fá á sig sekt. Auðvitað ættum við öll að hugsa öðruvísi og reyna að fara eftir reglunum til að gæta eigin öryggis og annarra. Þannig á hugsunin náttúrlega að vera. En engu að síður eru sektir lagðar á þá sem brjóta af sér í umferðinni og ég gæti fyrir mitt leyti hugsað mér að ganga lengra í þessum efnum og þá hugsanlega á öðrum sviðum. En þetta er ákveðin prinsippafstaða, þetta er grundvallarbreyting sem þarna er að verða á og ég tel hana mjög mikilvæga.