139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta áhugavert og kallar væntanlega á mikla umræðu í samgöngunefnd, t.d. um þá spurningu hvað telst há og fælandi upphæð fyrir fólk í mismunandi tekjuhópum. Ég get alla vega sagt fyrir mitt leyti að í það eina skipti sem ég hef fengið hraðasekt á síðari árum kom það verulega við budduna ef maður leggur þá reynslusögu inn í púkkið.

Svo er annað atriði líka sem mig langaði að fá svör ráðherrans við. Það er hækkun lágmarksaldurs bílprófs upp í 18 ár. Rannsóknir sýna að þeir sem öðlast ökuréttindi 18 ára valda 7% færri slysum en þeir sem öðlast ökuréttindi 17 ára. Enn fremur mundu 20 ára nýliðar valda 17% færri slysum borið saman við þá sem taka bílpróf 17 ára. Kalt mat: Ef maður skoðar þessar tölur vill þá ekki ráðherrann færa lágmarksaldurinn upp í 20 ár og fækka þá bílslysum um 17%?

Í þessari spurningu felast ekki mín viðhorf, ég hef ekki gert upp hug minn í þessu. En ég hefði gaman af því, og eflaust nokkurt gagn, sem nýliði í pólitík að heyra viðhorf reynsluboltans, hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar til þessa álitamáls.