139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til umferðarlaga og mig langar að byrja að ræða það sem ég kom inn á í andsvörum við hæstv. innanríkisráðherra, þ.e. þessa tekjutengingu sekta. Ég sá þegar tvö flækjustig sem hugsanlega kæmu upp, þ.e. annars vegar hvort tekið yrði tillit til tekna maka hjá viðkomandi aðila. Hæstv. ráðherra svaraði því til að það yrði ekki gert. Þá getur maður velt fyrir sér ýmsum hlutum, þ.e. ef annar makinn er heimavinnandi og hefur lágar tekjur og hinn aðilinn er útivinnandi með háar tekjur þá er spurningin um réttlætið í þessari aðgerð og markmið hæstv. ráðherra, að þeir sem hafa lág laun, þ.e. ein og hálf lágmarkslaun eins og þau eru tilgreind í frumvarpinu, geti fengið allt að 25% afslátt af sektinni. Það dregur úr gildi þessa ákvæðis og þessarar hugsunar hjá hæstv. ráðherra ef ekki er tekið tillit til tekna maka.

Sá sem lendir í umferðarlagabroti þarf líka að skila skattskýrslu síðasta árs. Ef hann hefur í millitíðinni lækkað í launum eða misst vinnuna er komið ákveðið flækjustig í þessa hugsun og þetta markmið frumvarpsins. Mér finnst vera ákveðið flækjustig í þessu og það er svo sem í anda stjórnvalda í dag að reyna að flækja hlutina sem mest og alls staðar þar sem hægt er.

Hæstv. ráðherra kom inn á það í andsvari sínu að tekið væri tillit til þess sem hefði gerst erlendis, og allt gott um það að segja. Hann vitnaði sérstaklega til Finnlands í því efni. Í frumvarpinu kemur fram að eftir að tekjutengingin var tekin upp í Finnlandi virðist það ekki hafa haft nein teljandi áhrif á almennt umferðaröryggi enda er tíðni umferðarlagabrota þar áþekk því sem gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Það að miða sektir við tekjur virðist því ekki hafa skilað sér út frá sjónarmiðum um öryggi í umferð. Maður er því dálítið hugsi yfir þessu, hvernig þetta er í raun og veru í framkvæmd. Ég set töluverða fyrirvara við þetta ákvæði í frumvarpinu.

Ég vil í þessu sambandi nefna ökuskólana, sem ég kom líka inn á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra áðan, þ.e. að nú skuli allt nám fara fram í ökuskólum. Út frá reynslu minni og þekkingu af því — ég er ekki sérfræðingur í því — hef ég ekki séð neitt athugavert við að ökukennarar starfi úti á landsbyggðinni sem einyrkjar, að þeir geti ekki síður búið fólk undir að fá ökuréttindi en stórir ökuskólar í Reykjavík. Manni finnst að því fólki vegið sem við það starfar. Hugsanlega er þarna hjáleið fyrir þá einstaklinga sem sinna þessu í dag en að lágmarki þurfa það að vera fimm aðilar sem taka sig saman um að reka ökuskóla. Hugsanlega gætu fimm ökukennarar sem búa á sama svæði stofnað um slíkt hlutafélag. Með því væru þeir búnir að stofna eitt stykki ökuskóla og uppfylla þannig kröfur laganna, séu þá hugsanlega verktakar þar eða hvernig sem menn útfæra það. Það breytir þó engu um það að ökukennslan verður með sama hætti og hún er í dag. Ég er því dálítið hugsi yfir þessu og sé ekki rökin fyrir því að gera einyrkjanum erfiðara fyrir en er í dag. Eins og allir vita þá er ekki markaður fyrir marga ökukennara í litlum plássum.

Gæti þetta hugsanlega leitt til þess í framtíðinni að fólk utan af landi sem vill ná sér í ökuréttindi þurfi að koma til Reykjavíkur til að fara í ökuskóla? Það kostar náttúrlega fullt af peningum þannig að ég set spurningarmerki við þetta. Ekki síst vegna þess að ég tel, og það er reynsla mín, að þeir sem læra hjá einyrkjum úti á landi eru ekkert síður færir um að fá ökuréttindi. Benda tölur um slysatíðni til annars? Ég spyr.

Hæstv. ráðherra segir líka að þetta sé svona jafnvægiskúnst sem fundin verði lausn á sem menn muni útfæra, það er ágætissjónarmið út af fyrir sig. En ég bendi hins vegar á að ef frumvarpið verður samþykkt með þessu ákvæði þá stendur það bara skýrt í lögum hvernig þetta skuli gert. Ef þetta ákvæði helst óbreytt er ekki hægt að fara í grafgötur um hlutina, ekki þegar frumvarpið er orðið að lögum. Mér finnst jafnvægiskúnstin felast í því að reyna frekar að laga frumvarpið að þeim breyttu forsendum sem menn vilja sjá í framtíðinni.

Mig langar líka aðeins að koma inn á bílprófsaldurinn en nú er verið að hækka hann úr 17 í 18 ár. Það kemur fram í frumvarpinu að hæsta slysatíðnin er á fyrsta ári og vitnað er í ítarlegar erlendar rannsóknir — það skiptir kannski ekki öllu mál hvort þú ert 17 ára, 18 ára eða 19 ára ef verið er að ræða fyrsta árið. Það kemur hins vegar fram að slysum gæti hugsanlega fækkað um 6% með því að færa aldurinn úr 17 í 18, það eru rökin fyrir þessu. Það er góðra gjalda vert að menn skuli hækka aldurinn til að reyna að fækka slysum, við höfum það öll að markmiði að reyna að fækka slysum í umferðinni.

Það vildi þannig til, virðulegi forseti, að eftir að frumvarpið var lagt fram, og ég á sæti í hv. samgöngunefnd, fékk ég bréf frá 13 ára gömlum dreng sem heitir Daníel Þór Gunnarsson og býr á Hvammstanga. Ég geri þær athugasemdir við þetta að þetta gæti hugsanlega — þetta gerist að vísu í ákveðnum þrepum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, hækkar um þrjá mánuði á hverju ári, tekur að fullu gildi árið 2016 — haft áhrif á skólagöngu 17 ára krakka sem búa í dreifbýli. Í dreifbýlinu eru ekki almenningssamgöngur eins og eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk getur farið upp í strætisvagn og farið í skólann eða hvernig sem það er. En fólk sem býr í dreifbýlinu eins og þessi ágæti ungi maður, sem er einungis 13 ára gamall og hefur greinilega kynnt sér þetta — hann sér fram á það að þegar hann er kominn á bílprófsaldurinn hefur þetta að fullu tekið gildi. Ég held að við þurfum að ræða bæði kosti og galla þessa í hv. samgöngunefnd. Ég er ekkert að gera lítið úr, svo að það komi skýrt fram, þeim markmiðum hæstv. ráðherra að vilja tryggja umferðaröryggi þessara unglinga, það er mjög mikilvægt.

Mig langar að lokum að koma inn á hlífðarfatnað sem er skilgreindur með bifhjólum. Þegar þetta mál var á fyrri stigum settu bifhjólasamtökin og margir bifhjólaeigendur ákveðinn fyrirvara við þær kröfur sem hugsanlega yrðu reistar hvað varðar öryggisbúnað og hvernig hann yrði flokkaður. Í dag er fólk í hefðbundnum leðurgöllum sem margir telja fullnægjandi búnað og menn höfðu áhyggjur af því að þetta gæti orðið mjög íþyngjandi fyrir bifhjólamenn. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherrann eigi í framhaldinu að setja nánari reglur um hvernig það yrði gert. Ég vænti þess þá að hæstv. ráðherra hafi samráð við það fólk sem þekkir þetta mál, fólki er að sjálfsögðu umhugað um sitt eigið öryggi. Ég geng út frá því sem vísu að þeim einstaklingum sem aka bifhjólum sé ekkert síður annt um öryggi sitt en öðrum ökumönnum og treysti því að þegar hæstv. ráðherra fer að vinna þessar reglur taki hann tillit til þess sem þetta fólk hefur fram að færa.

Ég vil að lokum víkja aðeins að því sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laganna er að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda …“

Við vorum í utandagskrárumræðu áðan um samgöngumál, um mál alls óskylt þessu máli. En ég heyrði þar í ræðu hæstv. ráðherra að hann er sammála mér og mörgum öðrum um að brýnasta verkefnið í vegamálum séu sunnanverðir Vestfirðir. Ég tel að íbúarnir þar búi við skert umferðaröryggi miðað við aðra íbúa þessa lands og það háir því samfélagi mjög. Þegar menn fara að ræða samgönguáætlun hljóta þessi verkefni að njóta forgangs til að ná markmiðum þessara laga þó svo þau séu óskyld samgöngumálum. Ekki eru nema nokkrar vikur síðan sá ágæti fréttamaður Kristján Már Unnarsson var með frétt um það hvernig aðstæðurnar eru á þessu svæði, og það ber að þakka. Í þeirri frétt var sýnt myndband tekið úr flutningabíl sem var að fara upp Ódrjúgsháls, við alveg ótrúlegar aðstæður. Ég hef stundum hugsað með sjálfum mér að Vegagerðin ætti að greiða honum fyrir að vera upplýsingafulltrúi. Hann hefur staðið sig einstaklega vel að flytja fréttir, þessi ágæti fréttamaður, Kristján Már Unnarsson, af ástandi vega og þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru og í umfjöllun um samgöngumál almennt.

Virðulegi forseti. Hv. samgöngunefnd mun taka þetta mál til umfjöllunar og ég mun leggja mitt af mörkum, eins og ég hef vit og getu til, þar án nokkurra fordóma. Markmiðið er skýrt, að reyna að auka umferðaröryggi og bæta þessa löggjöf eins og hægt er.