139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í upphafi fagna ég því að þetta frumvarp sé aftur komið til þingsins og vona að þinginu takist núna að klára afgreiðslu málsins. Það eru nokkur atriði sem mig langar að drepa á í sambandi við frumvarpið og byrja á atriðum er snúa að VII. kaflanum, þ.e. kaflanum um reiðhjól og bifhjól.

Það er vel, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að það sé talað nokkuð um reiðhjól og það með nútímalegri hætti en áður. Það eru samt nokkur atriði sem mér finnst vanta umræðu um. Við höfum áfram reglur um hjálmanotkun fyrir 15 ára og yngri, en ég velti því alvarlega fyrir mér hvort ekki sé tímabært í sambandi við setningu þessara laga, og þá ákvæði 76. gr. frumvarpsins, að taka einnig upp reglur um hjálmanotkun fyrir eldri einstaklinga en 15 ára. Ástæða þess að ég velti þessu upp er ekki bara sú að ég vilji setja reglur um allt, heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál. Við vitum nú að það er hægur vandi að hjóla á reiðhjóli á allt upp í 40–50 km hraða ef menn eru á sæmilegri græju, eins og stundum er sagt, og hættan sem hjólreiðamönnum er búin við það getur verið ærin. Mér finnst að þá þurfum við að velta fyrir okkur hvort við ætlum annaðhvort að halda okkur við það að hafa ekki hjálmalög fyrir eldri hjólreiðamenn eða þá hreinlega að setja upp hraðatakmarkanir á hjólreiðastígum. Þær eru yfirleitt bundnar í lögreglusamþykktum og eru misjafnlega strangar en jafnvel með reiðhjólahraða eins og t.d. í lögreglusamþykkt Reykjavíkur, upp á 25 km/klst. ef ég man rétt, er hægt að valda sjálfum sér og öðrum ómældum skaða. Og þá er öryggisbúnaður mikilvægur. Því velti ég þessu upp.

Ég sé ekki talað um það í frumvarpinu en hef hins vegar séð fólk á hjólreiðastígunum á reiðhjólum með svokölluðum litlum rafmagnsmótor eða hjálparmótor sem auðveldar fólki stig upp í móti og velti fyrir mér hvort þau séu bifhjól eða reiðhjól. Menn geta komist mjög hratt á þessum hjólum ef þeir stíga þau af krafti, og heldur hraðar jafnvel en hinum. Menn þurfa aðeins að hugsa um þetta og ég beini því til hv. samgöngunefndar að skoða þetta. Þessi atriði skipta töluverðu máli.

Í frumvarpinu er talað um tengivagna í 69. gr., m.a. tengivagna fyrir bifhjól og reiðhjól. Það er tekið fram að tengivagnar fyrir reiðhjól megi aðeins vera hliðarvagnar hægra megin. Nú er það svo að einu tengivagnarnir fyrir reiðhjól sem eru á markaðnum og fást, a.m.k. eftir því sem mér er kunnugt um, eru tengivagnar sem eru hengdir aftan í hjólið. Þarna er bæði verið að tala um farangurstengivagna og tengivagna sem eru notaðir til að flytja farþega, oft börn, og mér finnst mikilvægt að tekið sé tillit til þessa í frumvarpinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Annað öryggisatriði sem ég vil líka fá að ræða lítillega, frú forseti, er þetta með hraðatakmarkanirnar. Ég velti fyrir mér hvort það sé virkilega þörf á því á Íslandi að setja heimildarákvæði um 110 km hámarkshraða, jafnvel á tvíbreiðum hraðbrautum. Ég sé út frá umhverfi og öryggi ekki margt sem mælir með því, og tæplega er það í efnahagslegu tilliti. Þær hraðbrautir á Íslandi sem eru til í dag eru lengstar, ef ég man rétt, í beinum legg 25–30 km og hagræðið sem hlýst af því að auka hámarkshraðann á þeim hraðbrautum úr 100 upp í 110 getur tæplega réttlætt þessa breytingu. Því beini ég því til ráðherra og nefndarinnar hvort ekki megi endurskoða þetta.

Ég fagna reglum um að breyta þeim mörkum sem eru á leyfilegu áfengismagni í blóði. Ég held að það sé afar jákvætt skref og mikilvægt. Í þeirri grein er aftur eingöngu talað um vélknúin ökutæki og spurning hvort þarna eigi ekki líka þá að vera ákvæði um hjólreiðamenn, einkum í ljósi aukinnar umferðar reiðhjóla og þess að það er orðið hægt að hjóla býsna hratt á reiðhjólum og menn eru líklegri til að fara óvarlega hafi þeir neytt áfengis jafnt á reiðhjólum sem öðrum farartækjum.

Þá vil ég einnig koma aðeins inn á, það eru meiri smáatriði, 47. gr. þar sem talað er um að ekki megi selja eða afhenda ökumanni vélknúins ökutækis eldsneyti eða annað sem þarf til aksturs ef hann er augljóslega undir áhrifum áfengis eða annarra efna. Í ljósi þess að nú er mjög stór hluti sölustaða og afhendingarstaða með eldsneyti ómannaður velti ég fyrir mér með hvaða hætti hægt sé að framfylgja þessu. Þurfa þá hreinlega að vera sérstök ákvæði um myndavélabúnað til að fylgjast með slíku á slíkum afgreiðslustöðum? Ég veit að það er myndavélabúnaður á mörgum þessara staða en alls ekki alls staðar og því velti ég þessu upp.

Að síðustu ætla ég að nefna 55. gr. Í henni er talað um að neita megi þeim um ökuskírteini sem háður er notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna og bera megi þessa ákvörðun undir dómstóla. Þetta er gott og blessað og ég er svo sem alveg dús við að það megi gera þetta, en mér finnst algerlega vanta hvernig eigi að meta þetta. Hver á að meta í hverju tilviki hvort einhver er háður einhverjum lyfjum? Hvað með til að mynda einstakling sem er háður sterkum verkjalyfjum og hefur tekið þau árum saman? Á að neita honum um að fá aðgang að ökutæki sem er kannski lykilatriði til að viðkomandi geti áfram stundað vinnu sína eða komist á milli staða? Ég held að það verði að vera a.m.k. einhver skýring, hvort sem það er beinlínis í lagatextanum, nefndarálitinu eða annars staðar, um það með hvaða hætti við ætlum að sjá um að þessu atriði laganna sé framfylgt.

Frú forseti. Ég fagna framkomu þessa frumvarps. Ég vona að það verði samþykkt en þar sem ég á ekki sæti í hv. samgöngunefnd taldi ég rétt að koma þessum athugasemdum á framfæri úr ræðustól.