139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ólafs Þ. Gunnarssonar er mikilvægt að koma sjónarmiðum á framfæri í umræðuna. Hér hefur einkum verið vikið að tekjutengingunni, ég hef svarað spurningum sem þar hafa komið fram, aldursmörkum til að fá leyfi til að aka bifreið og ýmsir aðrir þættir hafa verið til umfjöllunar sem nefndin mun síðan taka til skoðunar.

Ég vek athygli á því að þó að kveðið sé á um í frumvarpinu að ökukennarar þurfi að vera fimm til að mynda einingu er ekki þar með sagt að þeir þurfi allir að vera á einu og sama svæðinu. Þetta eru allt hlutir sem þarf að skoða.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagðist vonast til að tekið yrði tillit til sjónarmiða utan þingsins við reglugerðarsmíð. Það fullyrði ég og fullvissa hann um að verður gert enda hefur verið unnið þannig að frumvarpinu. Ég hygg að ekkert frumvarp hafi fengið eins rækilega skoðun allar götur frá því að farið var að smíða það árið 2007. Síðan hefur þetta verið á vefnum og fjöldinn allur af ábendingum komið fram. Það verður reynt að verða við þeim eins og kostur er og því sem talið hefur verið hyggilegt, þar með talið hugmyndum sem fram hafa komið hjá bifhjólamönnum. Hv. þingmaður vakti sérstaklega athygli á þeim.

Ég get nefnt það við hv. þm. Ólaf Þ. Gunnarsson að gefnu tilefni, af því að hann talaði um hjálmana og lagaskyldu í þeim efnum, og af því að við erum svo fá í þingsal ætla ég að treysta honum fyrir því að ég var með hugmyndir um að slaka á ýmsu í reglugerða- og lagaumhverfinu en beygði mig fyrir rökum í gagnstæða átt frá Umferðarstofu, frá læknum og frá þingflokki mínum um að það væri ekki til góðs að slaka á þessum reglum. Ég ætlaði að nema úr gildi lagakvöðina og hafa svona almennt viðmið, enda taldi ég óheppilegt að færa þetta allt undir laga- og reglugerðarstraujárn. En það voru aðrir sem höfðu vit fyrir mér í því efni og ég varð við þeim ábendingum og það hef ég reynt að gera í þessu frumvarpi og við reglugerðarsmíðina verður hafður sá háttur á, því lofa ég.

Ég þakka fyrir umræðuna og legg til að frumvarpið fari til samgöngunefndar til umfjöllunar. Ég gleymdi að geta þess í framsöguræðu minni.