139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

sameining landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar.

[10:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér umhugsunarvert að velferðarráðherra sé ekki kunnugt um með hvaða hætti undirstofnanir landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar vinna. Hæstv. ráðherra sagði að hér hefði faglega verið að verki staðið og annað í þeim dúr. Samt sem áður liggur fjárhagslegur ávinningur sameiningar þessara tveggja stofnana ekki fyrir. Það hlýtur að vera vekja mann til umhugsunar um hver heimili hugsanlega verðandi forstjóra þessarar sameiginlegu hugsanlegu stofnunar að hefja vinnu með þeim hætti sem nú er gert. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra nú þegar hann segist ætla að skoða málið frekar: Hyggst hann grípa með einhverjum hætti inn í það ferli þegar farið er af stað með þeim hætti sem lýst hefur verið? Þarna er hugsanlega um skaðabótaskyldu að ræða. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra grípa inn í það ferli? Er sá (Forseti hringir.) sem þannig fer fram án þess að frumvarp sé orðið að lögum fær um að verða forstjóri slíkrar sameiningar?