139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þingmanns af stöðunni á Vestfjörðum en um hana hefur verið fjallað í ríkisstjórn, það var gert í síðasta mánuði. Á þeim ríkisstjórnarfundi var nokkrum ráðuneytum undir forustu forsætisráðuneytisins falið að skoða þá stöðu og athuga með hvaða hætti hægt væri að koma inn í myndina og grípa hugsanlega til aðgerða. Þeirri yfirferð er svo að segja lokið og mun væntanlega verða fjallað um niðurstöðu skoðunarinnar á næstu einum eða tveimur ríkisstjórnarfundum.

Ég hef einnig átt fund með fulltrúum Ísafjarðarbæjar og kallaður hefur verið saman hópur sérfræðinga innan stjórnsýslunnar til að skoða þetta mál. Einsýnt er að hægt er að fara í nokkur verkefni þarna sem menn hafa haft til skoðunar en metið er þó að ekki verði lengra farið í því efni án samráðs við heimamenn. Lagt er til að haft verði sama verklag eins og varðandi Suðurnesin þannig að heimamenn komi að allri vinnu og úrvinnslu á þeim tillögum og hugmyndum sem eru á borðinu.

Nokkur verkefni eru nefnd sem ég get ekki farið nánar út í á þessu stigi. Þau snerta endurmenntunarmál, ferðaþjónustu, samgöngur og ýmis sérverkefni. (Gripið fram í.) Unnið er að því að skilgreina kostnaðinn við þau verkefni sem menn telja nauðsynlegt að athuga hvort hægt sé að fara í. En næsta skref eftir að málið verður tekið upp á ríkisstjórnarfundum og farið verður yfir þessi verkefni, er að hafa samband við heimamenn og koma á (Forseti hringir.) aðgerðanefnd svipaðri þeirri og sett var á fót á Suðurnesjum.