139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða heimilanna.

[10:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er orðið allt of langt vil síðan við höfum rætt um stöðu heimilanna í þessum sal, hvernig heimilin á Íslandi standa og hver framtíð þeirra er. Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna það væri og ég held að það sé hollt fyrir okkur þingmenn að velta því aðeins fyrir okkur hvort svo almenn ánægja og sátt ríki um stöðu íslenskra heimila þannig að við þurfum ekki að ræða það mál í þessum sal. Ég held reyndar ekki að svo sé og vona ég að þessi stutta fyrirspurn verði tilefni til að við höldum áfram að ræða það í þingsal.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í stöðu heimilanna vegna þess að hæstv. ráðherra tók í rauninni af skarið með því að setja á fót einhvers konar samráðshóp sem fjallaði um heimilin og stöðu þeirra og beitti sér fyrir miklum og fjölmennum fundum. Við getum svo deilt um og haft skoðanir á því hvort það skilaði einhverju og hvort raunverulegur árangur hafi náðst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvers konar eftirfylgni sé í gangi á vegum ráðuneytisins varðandi stöðu heimilanna, hvort verið sé að vinna nýja úttekt á þeim málum, hvernig þróunin hefur verið og þá hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að beita sér fyrir því að hafa áfram frumkvæðið í þeirri vinnu sem hún tók svo sannarlega upp á sína arma með því að hafa forgöngu um samráð.

Það er mjög mikilvægt að við fáum reglulega upplýsingar um stöðuna. Við þingmenn fáum tölvupósta og símtöl frá einstaklingum, frá fjölskyldufólki sem ber sig ekkert sérstaklega vel þrátt fyrir þessar aðgerðir sem sagt er að gripið hafi verið til.

Hitt er nokkuð sem við þekkjum öll, að því miður flytur fólk áfram úr landi vegna áfalla.