139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

verðhækkanir í landbúnaði.

[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessa dagana hellast yfir landbúnaðinn margs konar kostnaðarhækkanir. Ég nefni sem dæmi áburðarverð sem hefur hækkað um 11–14%, og olíukostnaður hefur hækkað eins og allir vita. Það hefur m.a. komið fram í sívaxandi flutningskostnaði og dæmi eru um allt að 55% hækkun á flutningskostnaði frá síðari hluta árs 2008 og er örugglega ekki allt komið fram enn þá. Þá hafa verið tilkynntar hækkanir á tilbúnu fóðri um 5–10% og allir vita að raforkuverð í dreifbýli hefur hækkað mjög mikið.

Nú blasir við að tvennt getur gerst: Annaðhvort verða bændur að taka kostnaðarhækkanirnar á sig án þess að velta þeim út í verðlagið, sem hefur þær afleiðingar í för með sér að hagur bænda mun versna mjög mikið og er þar ekki á bætandi, eða þá hitt að með einhverjum hætti verði tekið tillit til þess m.a. hjá verðlagsnefnd búvara þegar hún kemur næst saman til að ákveða búvöruverð að svo miklu leyti sem hún hefur yfir því að ráða, og reyna síðan með öðrum hætti að velta verðlagshækkunum út í verðlagið, sem verður örugglega erfitt eins og málum háttar núna.

Við vitum að landbúnaðurinn hefur staðið sig mjög vel. Afurðir landbúnaðarins hafa hækkað mun minna en sem svarar almennum verðlagshækkunum hér á landi þannig að segja má að landbúnaðurinn hafi í raun og veru dregið úr þeim verðlagshækkunum sem orðið hafa í landinu og tryggt þannig betri lífskjör.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði oft ráð undir rifi hverju áður fyrr þegar rætt var um svipuð mál, þegar við ræddum kostnaðarhækkanir, t.d. á áburði og fóðri. Þess vegna leikur mér mikil forvitni á að vita hver hans svör eru núna, hvernig hann horfir á málin og hvernig hann hyggst bregðast við ef það er hægt með einhverjum hætti til að koma í veg fyrir að bændur verði fyrir kjaraskerðingu eða að kostnaðarhækkunum verði velt út í verðlagið.