139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

verðhækkanir í landbúnaði.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp og er það ekki að ástæðulausu eins og hv. þingmaður rakti. Þær miklu kostnaðarhækkanir sem eru nú sérstaklega á innfluttum aðföngum til landbúnaðar eru mikið áhyggjuefni og leiða til, eins og hv. þingmaður kom að, skertra kjara bænda og jafnvel einnig hækkaðs verðs til neytenda.

Það er alveg rétt að verðlagsnefnd búvara fer yfir málin varðandi þær búvörur sem eru samningar um milli ríkisins og bænda. Hún starfar í sjálfu sér sjálfstætt. Formaðurinn er skipaður af ráðherra en að öðru leyti starfar hún sjálfstætt með aðkomu ýmissa aðila. Á næstu dögum verður búnaðarþing og ég geri ráð fyrir að þessi mál verði tekin upp þar, rædd og metin. Ég mun fylgjast mjög grannt með þeirri umræðu og hvaða áherslur og/eða innkomu hið opinbera getur haft í þeim málum. En ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um að bændur, landbúnaðarframleiðslan og innlend matvælaframleiðsla, hafa staðið sig afar vel og hækkanir til neytenda eru þar miklu minni en á öðrum neysluvörum. Það sýnir hvað það er mikilvægt að vera með öfluga og trausta landbúnaðar- og matvælaframleiðslu. Þess vegna þurfum við (Forseti hringir.) að vera á varðbergi gagnvart því sem hv. þingmaður minnist á, þ.e. þeim miklu hækkunum sem dynja yfir.