139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

skýrsla um endurreisn banka og fjármálastofnana.

[11:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég treysti forseta til að fylgja málinu eftir og er alveg sannfærður um að hún geri það. En vegna þessa máls og eftirlitsskyldu okkar þingmanna hvet ég virðulegan forseta til að ýta á eftir því að fyrirspurnum verði svarað sem legið hafa svolítið lengi hjá hæstv. ráðherrum, m.a. hjá hæstv. velferðarráðherra varðandi Íbúðalánasjóð, sem tengist þessum málum, og eins hjá hæstv. fjármálaráðherra varðandi þær upphæðir nákvæmlega sem settar hafa verið í fjármálastofnanir. Báðar fyrirspurnirnar eiga það sameiginlegt að þær eru farnar fram yfir þá 10 daga sem hæstv. ráðherrar hafa til að svara þeim og önnur mun lengra, þ.e. fyrirspurnin til hæstv. velferðarráðherra. Ég hvet virðulegan forseta til að sjá til þess að þeim fyrirspurnum verði svarað þannig að okkur verði gert auðveldara fyrir í því risastóra máli sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni.