139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Á yfirborðinu kann þetta að virðast lítið og jafnvel sjálfsagt mál en eigi að síður snýst það um eitt mikilvægasta verkfæri mannlegrar tilveru sem er tungumálið, hvort sem það er íslensk tunga eða íslenskt táknmál, sem er auðvitað það táknkerfi sem við nýtum til að tjá hugmyndir eins og Ferdinand de Saussure orðaði það einhvern tímann, annaðhvort undir lok 19. aldar eða í byrjun þeirrar 20. Þetta er eitthvert mikilvægasta verkfæri sem við sem menn eigum og stundum er sagt að þetta sé það sem geri manninn að manni.

Markmið frumvarpsins eru kannski ekki jafnháleit og þær hugmyndir sem búa að baki, en þó eru þau nokkuð háleit því að þau snúast um að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfni og aðgengi mannaað henni. Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir að íslenskt táknmál verði viðurkennt í lögum sem fyrsta mál þess hluta heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem reiða sig á táknmálið til tjáningar og samskipta. Lagt er til að íslenska ríkið hlúi að íslenska táknmálinu og styðji. Mælt er fyrir um rétt þeirra sem þörf hafa fyrir táknmál, að þeir skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota íslenska táknmálið frá máltökualdri eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda kemur fram síðar á ævinni. Einnig er mælt fyrir um hvernig lögunum skuli framfylgt og hverjir beri þá skyldu. Þá eru fyrirmæli um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Frumvarp þetta á sér talsvert langan aðdraganda en segja má líka að það sé í raun og veru aðeins einn áfangi á vegferð sem hófst þegar hinn 12. mars 2009 var samþykkt þingsályktun um íslenska málstefnu. Sú þingsályktun hljómaði svo:

„Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.

Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“

Í þingsályktuninni um íslenska málstefnu fjallar fyrsti kaflinn um lagalega stöðu íslenskrar tungu og þar er fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi á undanförnum árum, bæði hvað varðar löggjöf og atvinnulíf og hvernig samfara þessum breytingum íslenskur vinnumarkaður hefur orðið fjölþjóðlegur. Samfélagsbreytingar á borð við þessar skapa auðvitað margvísleg álitamál þegar kemur að stöðu tungunnar og ný lögfræðileg úrlausnarefni. Þeirra á meðal eru auðvitað spurningar sem varða lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Í þingsályktuninni kom fram að í gildandi íslenskum lögum er að finna ákvæði sem varða notkun íslenskrar tungu á einstökum sviðum samfélagsins en þau eru hluti af lögum sem varða önnur efni og ekki eru til nein sérstök lög sem fjalla skipulega um stöðu íslenskrar tungu í íslensku samfélagi. Í mörgum ríkjum hafa verið sett sérstök lög um tungumál og þá sérstaklega raunar þar sem tungumál eru fleiri en eitt og nauðsyn ber til að kveða á um hvert eða hver skuli vera opinber mál ríkisins og hver skuli vera staða annarra tungumála.

Nú er ekki slíku til að dreifa hér á landi en eigi að síður er það mat margra að allan vara þurfi að hafa á vegna þess að allt umhverfi okkar er orðið mun alþjóðlegra, hvort sem er á sviði atvinnulífs, menningarmála eða í raun og veru hvert sem við lítum í okkar samfélagi.

Til að fylgja eftir þeirri þingsályktun sem hér var samþykkt skipaði ég nefnd um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmáls í maí 2009. Í skipunarbréfi þeirrar nefndar var hlutverki hennar lýst þannig að henni væri ætlað að setja fram tillögur sem ætlað væri að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi. Nefndin skilaði tillögum sínum í skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út í maí 2010 og var þessari skýrslu dreift til allra þingmanna á sínum tíma. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að hún taki undir það markmið í íslenskri málstefnu að tryggja beri að íslensk tunga verði áfram það tungumál sem sameini íbúa landsins óháð uppruna, að tryggður verði réttur íslenskra ríkisborgara af erlendum uppruna og erlendra ríkisborgara, sem fá hér dvalar- eða atvinnuleyfi, til kennslu í íslensku svo að þeir eigi þess kost að taka fullan þátt í íslensku samfélagi á íslensku. Þá er brugðist við tillögum Íslenskrar málnefndar um að lagaleg staða íslensks táknmáls verði tryggð. Ítarleg grein er gerð fyrir íslensku táknmáli í skýrslunni og þeim þáttum sem því viðkoma. Nefndin lagði áherslu á að hver sem þörf hefur fyrir táknmál skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota táknmálið jafnskjótt og máltaka hefst og viðkomandi einstaklingur hefur þroska til. Þeir sem þess þurfa geti þannig notað íslenskt táknmál eftir því sem aðstæður frekast leyfa í daglegu lífi sínu og þannig litið á táknmálið sem móðurmál sitt.

Sérstakt álitaefni var hvort ástæða væri til að mæla í stjórnarskrá fyrir um stöðu tungunnar sem opinbers máls íslenska ríkisins. Ákvæði sem lúta að tungumálum er að finna í stjórnarskrám 158 ríkja, en einungis í 26 stjórnarskrám er tungumála að engu getið. Í mörgum stjórnarskrám Evrópuríkja er berum orðum mælt fyrir um hvaða tungumál sé opinbert mál ríkisins. Tillögur um slíkt stjórnarskrárákvæði bárust nefndinni frá nokkrum aðilum. Nefndin taldi ekki tímabært að svo stöddu að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá en hins vegar væri rétt að huga að því að þegar íslenska stjórnarskráin yrði endurskoðuð yrði þetta skoðað sérstaklega, hvort ástæða væri til þess að tilgreina tungumál í stjórnarskrá og þá líka eins og kemur fram hjá nefndinni hvort setja ætti önnur ákvæði um einhver grunneinkenni þjóðarinnar, t.d. þjóðfána, skjaldarmerki, þjóðsöng, svo dæmi séu nefnd.

Frumvarpið sem nú er lagt fram er byggt á tillögum nefndarinnar og farið er ítarlega yfir vinnu hennar í greinargerðinni en fyrst og fremst í skýrslunni sem hefur líka verið aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Nefndin studdist við þá vinnu einkum við ný sænsk lög sem birt voru í þýðingu í skýrslu nefndarinnar. Og við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila á sviði íslenskrar tungu og táknmáls.

Svo ég fari stuttlega yfir greinar frumvarpsins er í 1. gr. almenn yfirlýsing um stöðu íslenskrar tungu sem þjóðtungu Íslendinga og opinbert mál íslenska ríkisins. Þessu fylgir að íslensk tunga eigi að vera fullkomið mál í þeim skilningi að það sé nothæft og notað á öllum sviðum samfélagsins.

Í 3. gr. frumvarpsins er ákvæði um íslenskt táknmál og þar er mælt fyrir um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á að tryggja aðgang að íslensku táknmáli hverjum þeim sem þörf hefur á því. Táknmálið á ekki stoð í lögum nú og hefur um langa hríð verið unnið að því að tryggja lagalega stöðu íslensks táknmáls. Lít ég svo á að þetta frumvarp sé kannski fyrst og fremst fyrsti áfangi í að tryggja lagalega stöðu bæði íslenskrar tungu og íslensks táknmáls því að ljóst er að þessar lagagreinar, þó að þær hafi í sjálfu sér eins og kemur fram í kostnaðarmati með frumvarpinu ekki kostnað í för með sér, kunna þær að hafa áhrif á lagasetningu síðar meir og ég tel mikilvægt að þingmenn hafi það í huga að þarna er í raun og veru verið að leggja ákveðinn grunn sem vonandi verður hægt að byggja á til framtíðar við lagasetningu, reglusetningu og annað slíkt.

Í frumvarpinu koma fram nánari skyldur stjórnvalda til að vinna að varðveislu íslenskrar tungu, þróun, nothæfni og aðgengi manna að málinu. Þá mælir frumvarpið fyrir um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá er lagt til í frumvarpinu að ákvæði um Íslenska málnefnd eigi sér stað í lögum um íslenska tungu fremur en í lögum um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eins og nú er. Við skipan Íslenskrar málnefndar er lögð áhersla á að hún sé skipuð fulltrúum þeirra sviða samfélagsins sem mest fást við tungumálið í daglegum störfum sínum, lagðar eru til breytingar á skipan Íslenskrar málnefndar og aukið við fjölda þeirra sem skipaðir eru í nefndina.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að starfandi verði nefnd um íslenska táknmálið sem ætlað er það meginhlutverk að vinna að eflingu íslensks táknmáls, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er megináherslan lögð á að treysta stöðu tungunnar og táknmálsins í samfélaginu. Tungumálið, hvort sem það er íslensk tunga eða táknmál, er sameign okkar sem tölum það. Því er framtíð þess í okkar höndum. Ég nefndi í upphafi að tungumálið væri kannski eitt mikilvægasta verkfæri okkar sem manna og einhvern tímann man ég eftir að hafa heyrt tékkneskt máltæki sem hljóðaði einhvern veginn þannig að svo lengi sem tungumálið lifði væri þjóðin ekki dauð, þetta væri sem sagt ákveðið lífsmark með þjóðum. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að hafa í huga að tungumálið er ein af lykilstoðum okkar sem þjóðar en tungumálið er ekki sjálfgefið, árangur næst ekki nema við tökum málið í okkar hendur, nýir tímar færa okkur ávallt ný úrlausnarefni. Líklega verðum við ekki endilega alltaf sammála um aðferðir og áherslur en mestu skiptir að við séum sammála um að vinna að því markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur alls staðar í íslensku samfélagi og sama gildi um íslenskt táknmál. Þar sem tungumálinu sleppir lýkur heiminum og ég held að íslensk tunga móti að mörgu leyti heimsmynd okkar líka. Þetta er dýrmætt verkfæri sem við höfum í okkar höndum og það er von mín að þetta frumvarp verði til þess að styrkja stöðu þess.

Ég legg til að lokum að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til málsmeðferðar hv. menntamálanefndar.