139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ég fagna þessu frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og tel það löngu tímabært. Í frumvarpinu segir í 1. gr.:

„Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“

Það er eiginlega pínulítið skondið að nú, árið 2011, skuli í fyrsta skipti eiga að binda þetta dýrmæta tungumál okkar í lög sem þjóðtungu Íslendinga. En það sem er kannski merkilegast við frumvarpið er ekki eingöngu það heldur það sem stendur í 3. gr. um að íslenskt táknmál eigi að festa í lög. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.“

Frú forseti. Nú mun reyna á í íslensku skólakerfi, hvort heldur er í leik-, grunn- eða framhaldsskóla sem og í Háskóla Íslands. Nú mun reyna á með hvaða hætti Alþingi Íslendinga, nú og til framtíðar, ætlar að virða þessa 3. gr. sem hér er. Hvernig ætlum við að stuðla að því að táknmál verði jafngildandi og hér er lögð áhersla á, hvernig ætlum við að undirbúa það að hægt verði að nýta og kenna táknmálið til jafns við íslensku á öllum skólastigum?

Frú forseti. Þetta er metnaðarfullt frumvarp. Hvað varðar 3. gr. mun hún án efa verða það sem meginmáli skiptir í umfjöllun menntamálanefndar. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að leggja frumvarpið fram, hafa þann kjark sem felst í því að setja fram 3. gr. frumvarpsins. Sem fulltrúi í menntamálanefnd hlakka ég til að takast á við þetta verkefni en ég ítreka að nú reynir á hvernig Alþingi Íslendinga ætlar sér að vinna með frumvarpið og 3. gr. þess, af því að hún krefst þess sem sjaldnast eða aldrei má nefna, fjármagns af hálfu ríkisins, sveitarfélaga og þeirra sem um þetta þurfa að fjalla. Og það mun skipta máli í náinni framtíð, frú forseti, en mestu máli skiptir að fram er komið frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmál sem ber vitni um kjark hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.