139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér ástæðu til að koma í ræðustól Alþingis fyrst og fremst í þeim tilgangi að fagna því sem verið er að gera, en það er ástæða til þess í dag. Hér ræðum við mál sem í mínum huga er að stórum hluta mannréttindamál og mikið fagnaðarefni að skuli vera lagt fram. Þetta á ekki bara við um þá þætti sem snúa að því að gera íslenskt táknmál að móðurmáli þeirra sem það nota, þ.e. heyrnarlausra, heyrnarskertra, og daufblindra Íslendinga, heldur líka að búa til umgjörð utan um íslenskuna sem opinbert mál.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan, mál íbúa á Íslandi sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Þetta held ég að sé afar mikilvægt því að jafnhliða því að ákveða að íslenska sé opinbert mál og þjóðtunga Íslendinga megum við heldur ekki gleyma því að þúsundir, ef ekki tugþúsundir, Íslendinga nota íslensku ekki í daglegum samskiptum, heldur nota annað tungumál. Réttindi þessa hóps má alls ekki bera fyrir borð þó að við setjum þessi lög. Tryggja þarf kennslu þessara hópa, bæði tækifæri þeirra til íslenskunáms sem og til að þroska og þróa móðurmál sitt. Það skiptir mjög miklu máli. Frumvarpið er líka mikilvægt í því tilliti að alþjóðleg samskipti Íslendinga aukast í sífellu og við tökum nánast á hverjum einasta degi í þinginu við alls konar lögum og reglugerðum sem tengjast EES-samningnum og eru yfirleitt alltaf þýdd yfir á íslensku. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé staðfest óyggjandi að það sé verklag sem við viljum hafa vegna þess að við höfum ákveðið að þetta sé það mál sem á að tala eða verði opinbera málið í landinu.

Mig langar að beina einni meginspurningu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Hún varðar 5. gr. þar sem talað er um Íslenska málnefnd. Ég velti því fyrir mér, sérstaklega í ljósi þeirra áherslna sem koma fram um íslenskt táknmál í 3. og 4. gr., hvort hugsanlegt væri að hagsmunasamtök heyrnarlausra ættu sæti í nefndinni eða einhver fulltrúi skipaður af þeim. Það mætti kannski hugsa sér að það væri bitamunur en ekki fjár að bæta einum manni við í 18 manna hóp. Annars gæti líka ráðherra á hverjum tíma sem best ákveðið í hjarta sínu að annar af þeim tveimur sem hæstv. ráðherra skipar væri a.m.k. talandi á táknmál, hann gæti haft einhverjar slíkar vinnureglur.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta frumvarp mikilvægt framfaraskref í bæði menningar- og mannréttindalegu tilliti og það er fagnaðarefni að þingið skuli fá þetta gleðilega viðfangsefni.