139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Það gleður mig auðvitað að finna þann mikla samhljóm sem er hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um að þetta sé mikilvægt mál, bæði hvað varðar íslenska tungu sem þjóðtungu og íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra. Ég treysti því að hv. menntamálanefnd taki á þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram og skoði málið með opnum og jákvæðum huga. Í mínum huga er þetta mál, eins og ég sagði áðan, áfangi á vegferð sem lengi hefur staðið og mun standa lengi enn, eins og hv. þm. Mörður Árnason benti á í ræðu sinni og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir í sinni. Margt annað er fram undan en ég held eigi að síður að það sé mikilvægur áfangi ef frumvarpið verður að lögum því að það mun tryggja stöðu bæði íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og þar með hafa áhrif á aðra lagasetningu. Það skiptir að sjálfsögðu máli. Væntanlega munu lögin líka hafa áhrif á það hvernig við fylgjum slíkri lagasetningu eftir. Þar er margt sem taka þarf tillit til. Hv. þingmenn hafa nefnt ýmis atriði, t.d. skólakerfið, rannsóknir, aðgengismál og tækniþróun. Tæknin er meðal þess sem Íslensk málnefnd hefur unnið mjög ötullega að að undanförnu, að skoða stöðu íslenskrar tungu þegar kemur að nýrri tækni. Það er til að mynda merkilegt að sjá hvernig farsímar hafa náð að treysta stöðu sína á íslensku en tölvurnar verið frekar enskuskotnar. Það sýnir okkur að ekkert af þessu er náttúrulögmál, það skiptir hins vegar máli hvað við gerum, við sem notendur þessa tungumáls, hvernig við beitum okkur og hvaða kröfur við gerum.

Hér hefur líka verið hreyft öðrum málum, til að mynda því sem snertir alla þá sem eiga önnur móðurmál hér á landi en þau sem hér hafa verið nefnd. Það var gert að umtalsefni á degi íslenskrar tungu í nóvember þegar frú Vigdís Finnbogadóttir fékk Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, einmitt fyrir að vekja athygli á því að kunnátta og þekking á öðrum tungumálum er mjög mikilvæg til að geta ræktað sitt eigið. Það er ekki sjálfgefið að það sé gott að tala einungis íslensku heldur talar maður jafnvel betri íslensku ef maður kynnir sér og lærir önnur tungumál. Það skiptir líka máli að skoða stöðu annarra tungumála í menningararfinum og það getur tengst varðveislu menningararfsins almennt, eins og hv. þm. Mörður Árnason nefndi, þó að hann hefði því miður ekki farið með latínukveðskapinn sem hann boðaði. Við eigum það bara inni.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar um Íslenska málnefnd var farin sú leið að skipa sérstaka málnefnd um íslenska táknmálið fremur en að blanda þessum tveimur nefndum saman. Verði frumvarpið að lögum á ég þó von á því að þær nefndir muni eiga náið og gott samstarf og þær verði hýstar á sama stað. Þar skiptir máli að þær geti síðan mótað samráðsvettvang sinn. Þessi leið var valin því að hér er auðvitað um tvö tungumál að ræða, þ.e. íslenska tungu og íslenskt táknmál, og því talið eðlilegt að þarna væru tvær nefndir á ferð en ekki ein.

Hér hefur margt verið nefnt og ég vil að lokum segja að ég gæti tekið undir að kannski væri tímabært að fá hingað inn eitt stykki venjulegan mann. Ég man að ég þurfti oft sem yfirlesari á íslensku að spyrja þann sem skrifaði textann hvort hann skildi hann í raun og veru og gæti endursagt mér hann með öðrum orðum. Þá varð stundum fátt um svör. Það er ágætispróf en gallinn er sá að venjulegir menn verða fljótt óvenjulegir þegar þeir samlagast stofnanamálinu. Áður en maður veit af er maður farinn að tala um framkvæmd ákvarðana, er algjörlega búinn að glata sjálfsmyndinni og orðinn að stofnun. Það gæti verið úrlausnarefni fyrir okkur hvernig við eigum að vanda málið og gera það einfalt og skýrt. Hættan er alltaf sú að maður festist í tuggunum, eins og þær kallast, og endi eins og heil, lítil stofnun sem enginn skilur. Ég held að þetta mál verði ekki leyst með þessu frumvarpi, þetta er verkefni sem við eigum alltaf að vera meðvituð um, alltaf að hugsa um og reyna að sjálfsögðu að vanda mál okkar sem mest.

Að öðru leyti þakka ég góðar undirtektir og vona að hv. menntamálanefnd gangi vel að skoða málið. Eins og ég segi er þetta ekki svarið við öllum þeim úrlausnarefnum sem við eigum við að etja á sviði tungumáls og táknmáls en ég vona að þetta sé mikilvægur áfangi á þeirri vegferð, að treysta stöðu bæði íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.