139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

uppbygging Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi.

283. mál
[12:23]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Unnur Brá Konráðsdóttir. Í tillögugreininni er ályktað að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefjast nú þegar handa við uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi í Árborg.

Það er með ólíkindum að Náttúrugripasafn Íslands skuli ekki vera veruleiki á Íslandi. Árið 1889 var byrjað að reyna að koma á laggirnar Náttúrugripasafni Íslands og síðan eru liðin liðlega 120 ár. Samfélag okkar sem státar m.a. af auðugri náttúru, mikilli fjölbreytni og fegurð og hefur mikla sérstöðu í heiminum þar að lútandi hefur ekki einu sinni rænu á því að hafa almennilegt náttúrugripasafn.

Það hefur oft strandað á því að „lordarnir“ í hópi karla og kvenna á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki mátt heyra minnst á það að Náttúrugripasafn Íslands gæti verið utan höfuðborgarmarkanna. Slík afturhaldssemi er svo mikil forpokun að skelfilegt er til þess að hugsa. Það er ekki síst vegna sérstæðs náttúrulífs og jarðfræði og hins sívaxandi ferðamannastraums til Íslands til að sinna og skoða náttúru landsins sem rík ástæða er til að gera þarna bragarbót á og drífa upp Náttúrugripasafn Íslands með metnaði og glæsibrag. Það þarf ákveðna stærð af húsnæði til þess og víða um land er reyndar til húsnæði sem hægt væri að nota, en þjóðbraut ferðamannastraumsins á Íslandi liggur einmitt um Selfoss, um Suðurland í átt að öllum náttúruperlunum á Suðurlandi, í átt að Gullfossi og Geysi, Heklu, Vatnajökli, Þórsmörk, Landmannalaugum, Eyjafjallajökli og Vestmannaeyjum. Þess vegna er mjög fýsilegt að nýta kosti og möguleika í þessari nágrannabyggð höfuðborgarinnar til að gera blessuðum borgarbörnunum ekki of erfitt fyrir að heimsækja Náttúrugripasafn Íslands.

Það er örfáum mínútum lengri akstur úr austustu byggðum höfuðborgarsvæðisins til Selfoss en að aka úr austustu byggðum höfuðborgarsvæðisins vestur á Seltjarnarnes. Vegalengdirnar skipta ekki máli í þessu sambandi, heldur að koma þessu á koppinn. Það eru 5 milljónir hluta geymdar í geymslum upp á þúsundir fermetra á vegum Náttúrugripasafns Íslands sem sjálft er til húsa í litlu húsi við Suðurgötuna, gömlu loftskeytastöðinni. Það er náttúrlega ekki svipur hjá sjón, hvað þá meira, miðað við það sem ætti að vera.

Náttúrufræðifélag Íslands var stofnað 1889 í þeim eina tilgangi að koma á laggirnar Náttúrugripasafni Íslands. Síðan eru liðin, eins og ég gat um, 122 ár og markmiðinu hefur ekki verið náð. Það er ekki til sóma fyrir land og þjóð.

Fyrir skömmu gerðust þau merku tíðindi að Náttúrufræðistofnun Íslands komst í nýtt húsnæði til frambúðar í Garðabæ. Þar hefur stofnunin aðstöðu í fullkomnu skrifstofu- og rannsóknarhúsnæði, hefur fullkomna aðstöðu til að geyma gripi við réttar aðstæður, hitastig og rakastig, sem og tæknilegan búnað. En enn þá liggur Náttúrugripasafnið, gullmolinn sjálfur, óbætt hjá garði í geymslum hingað og þangað. Þar hafa menn engan aðgang að merkum munum í 5 milljóna hluta safni Náttúrugripasafns Íslands.

Náttúrugripasafn Íslands væri afar vel staðsett á Selfossi sem er eins og ég sagði í þjóðbraut fyrir mesta ferðamannastrauminn um Ísland og steinsnar frá höfuðborginni, aðeins um 30 mínútna akstursleið innan tíðar þegar lokið verður á næstu missirum og árum við tvöföldun Suðurlandsvegar. Leiðin að flestum náttúruperlum Íslands liggur um Selfoss til Þingvalla, Gullfoss, Geysis, Heklu, Landmannalauga, Þórsmerkur, Vestmannaeyja, Eyjafjallajökuls, Mýrdalsjökuls, Dyrhólaeyjar, Lómagnúps og Vatnajökuls svo nokkur dæmi sé nefnd. Nánast öll jurtaflóra og fuglafána Íslands er á þessu svæði. Margar náttúruperlur eru síðan allt í kringum landið, en ferðamannastraumurinn er langmestur á Suðurlandi vegna fjölbreytninnar og ekki síst vegna Gullfoss og Geysis. Nú hefur bæst inn í þennan hring Landeyjahöfn sem á á næstu árum eftir að skila gífurlegum fjölda farþega til og frá Eyjum í þá náttúruperlu sem þar er, stærstu verstöð Íslands að auki.

Herjólfur hefur flutt um 120 þúsund farþega á ári frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Á sex vikum eftir að Landeyjahöfn var opnuð í fyrrasumar flutti Herjólfur yfir 70 þúsund farþega. Það var ekki bara nýjabrumið, það var gjörsamlega nýr möguleiki að skutlast út í Eyjar á 25 mínútum í stað þess að fara oft þunga sjóleið í tæpa þrjá klukkutíma. Það ríður baggamuninn. Þegar Landeyjahöfn verður vonandi á næstu mánuðum búin að arta sig og menn búnir að læra á þá glæsilegu kosti sem hún býður upp á mun þetta að sjálfsögðu ganga eins og í sögu. Ekki er höfnin fullbyggð fyrr en búið er að byggja skip sem hentar henni og aðstæðum hennar. Þetta eru allt önglar á beitunni sem tryggir að það er mjög farsælt og snjallt að staðsetja Náttúrugripasafn Íslands á Selfossi, ekki síst vegna þess að þar er til staðar húsakostur sem mundi henta vel fyrir Náttúrugripasafn Íslands sem gera má ráð fyrir að þurfi um 5 þús. fermetra húsnæði til að koma fyrir safngripum við hæfi. Sem dæmi um mögulegan valkost er aðstaða í gamla hluta Hótels Selfoss þar sem er rými sem hentar sem sýningarsalir, fyrirlestrasalir, ráðstefnusalur og geymslur. Þessir valkostir eru ugglaust margfalt ódýrari en að byggja minnismerki um Náttúrugripasafn Íslands í höfuðborginni sjálfri.

Það er nefnilega ekki safnhúsið sjálft sem skiptir mestu máli heldur innihaldið, þeir hlutir sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða og eru til í kössum og kirnum Náttúrugripasafns Íslands. Það væri því snjallt að kanna þennan möguleika, til að mynda í samráði við sveitarstjórn Árborgar, og leggja á ráðin um uppbyggingu þessa. Í þeim tilgangi er þessi tillaga lögð fram, til að koma málinu á skrið og hætta nú blaðri og óraunhæfum væntingum heldur ganga til leiks og ljúka þessu verkefni með glæsibrag fyrir klárlega mjög lítinn kostnað miðað við það sem yrði ef menn færu í gegnum allt apparatið sjálft.

Með tvöföldun Suðurlandsvegar verður höfuðborgin nær Selfossi, hún verður nær Reykjanesi, hún verður nær miklum byggðarlögum í námunda borgarinnar. Oft hefur þótt langt frá Reykjavík en stutt til Reykjavíkur, en nú er þetta í raun að snúast við því að nú eru margir farnir að hugsa meira um að ná andrúmi, hressileika, afslöppun og fegurð leiðanna til byggða landsins frá höfuðborginni. Í því eru margs konar hlunnindi fólgin. Til marks um vilja margra í þessum geira er sú framsýni sem Jón Gunnar Ottósson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, hefur staðfest, að staðsetning Náttúrugripasafns Íslands þurfi ekki að vera í neinu tengd staðsetningu stofnunarinnar sjálfrar þótt uppbygging Náttúrugripasafnsins yrði að sjálfsögðu í fullri samtengingu og samráði við Náttúrufræðistofnun. Það er engin glóra í öðru en að menn vinni þar saman þótt ekki sé formlega ætlast til þess. En þannig skilum við árangri, þannig skilum við metnaði og þannig skilum við einhverju sem þjóðin mun elska.

Það er óskandi að mennta- og menningarmálaráðherra skipi snarlega nefnd til að kanna lausn á þessu máli til árangurs með þeim tillögum sem nefndar eru í þessari þingsályktunartillögu. Að lokinni umræðunni, virðulegi forseti, óska ég þess að málinu verði vísað til menntamálanefndar.