139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands.

285. mál
[12:42]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands. Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Arndís Soffía Sigurðardóttir, Ásbjörn Óttarsson, Björgvin G. Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Tillögugreinin ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma upp íslenskri handverksdeild í Listaháskóla Íslands.

Íslenskt handverk lærðra sem leikmanna stendur mjög hátt á heimsmælikvarða. Um allt land eru snjallir handverksmenn að verki í prjónlesi, útskurði, rennismíði, járnsmíði, mótun í leður og bein og gler og listmálun svo að nokkuð sé nefnt. Reglulegar sýningar handverksmanna undirstrika að hér er um að ræða listamenn af Guðs náð. Það hefur skort á að þessum verkmenntaþætti, þessari reynslu, þessari guðsgjöf, sé sinnt í íslenska skólakerfinu en þessi verkmenntaþáttur er ýmist sjálfsprottinn eða líður fram mann fram af manni í hefðum, reynslu og verkviti.

Í grunnskólum og verkmenntaskólum er að sjálfsögðu unnið á vettvangi íslensks handverks, í smíðum, föndri, myndmennt og fleiri þáttum, en rík ástæða er til að leggja meiri rækt við þennan þátt íslensks þjóðlífs og leggja öflugri grunn að kennslu á þessum sviðum í íslenska skólakerfinu. Margt hefur verið vel gert og margir eru þeir hópar og áhugaaðilar víða um land sem rækta íslenskt handverk og þar ber ekki síst að þakka konum landsins, íslenskum konum sem hafa fylgt þessu fastar eftir en aðrir í þjóðfélaginu

Það er rík ástæða til að styðja sérstaklega við íslenska prjónlesið sem að öllu jöfnu er unnið af konum í öllum byggðum landsins, handverk sem er stolt íslensks iðnaðar umfram margt annað. Þó spilar tvískinnungurinn þarna inn í, virðulegi forseti, eins og í svo mörgu og gott dæmi um það á sér stað í ræðusal á Alþingi Íslendinga. Þannig eru mál vaxin að ákveðnar reglur gilda um klæðnað í salnum og það er kannski eðlilegt og af hinu góða að einhver regla sé á því. En á sama tíma og þingmenn geta komið hingað í sal í mussum, í áprentuðum bolum, í ódýrustu klæðum sem að öllu jöfnu þykja ekki henta nema á útihátíðum — á sama tíma og karlmönnum eru settar mjög strangar skorður um klæðnað hér í þinginu leyfist þessi frjálslegi klæðnaður en á sama tíma er til að mynda bannað að ganga í íslenskum peysujökkum, prjónuðum íslenskum peysujökkum. Þetta er slík firra að það nær ekki nokkurri átt, slík vanvirðing við íslenskt handverk, við íslenskar konur og er smádæmi um það hvað vitleysan getur gengið langt.

Þess vegna vildi ég nefna þetta, virðulegi forseti, að þarna þarf að hafa reglur í heiðri eins og vera ber en það verður að vera eitthvert samræmi í galskapnum, og ef fólk vill ekki meta handverk íslenskra kvenna í bestu gerð klæða þá er eitthvað að.

Það þarf að sýna íslensku handverki virðingu og hvatningu með því að stofna til handverksdeildar á íslenskum grunni í Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn ætti einnig að vera í fararbroddi við að útfæra handverksþáttinn fyrir og með öðrum skólum landsins. Ef Íslendingar leggja ekki rækt við sína eigin menningu er ranglega í leiðina lagt inn í framtíðina.

Sigga á Grund í Ölfusi er gott dæmi um ítursnjallan handverksmann sem lifir á Íslandi í dag og hún er ekki bara handverksmaður, eins og við köllum, heldur snillingur og listamaður af guðs náð. Af hverju ættum við ekki að nýta útskurðarmeistara eins og hana? Hún hefur jafnvel skorið út íslenska gæðinginn, fegurri en hann er á fæti. Af hverju eigum við ekki að nota þetta fólk til að leggja grunn að áhuga og metnaði okkar fólks á Íslandi til að rækta þennan garð betur en gert hefur verið?

Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þessu máli verði vísað til menntamálanefndar.