139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[12:49]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Eins og allir vita hefur húshitunarkostnaður á landsbyggðinni verið mjög sligandi fyrir mörg heimili. Þannig hefur verið um langan aldur. Stundum hefur tekist sæmilega til við niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði en stundum hefur gengið miður. Upp á síðkastið hefur mjög slegið í bakseglin og húshitunarkostnaður hefur verið að hækka ár frá ári. Þetta er orðið mjög íþyngjandi fyrir mörg heimili, ekki síst í dreifbýli.

Í þessu sambandi hafa menn líka verið að reyna að örva notkun á jarðvarma til húshitunar víða um land og sums staðar hefur tekist prýðilega til. Tekin var ákvörðun um að greiða fyrir því með ýmsu móti en nú er svo komið að mati íslenskra stjórnvalda að ekki eru miklar vonir bundnar við það að hægt sé að auka átak í jarðhitaleit í landinu svo nokkru nemi.

Í tillögu til byggðaáætlunar sem liggur fyrir Alþingi er t.d. kveðið afdráttarlaust upp úr um það að hitaveituvæðing á Íslandi hafi nánast náð hámarki hvað hagkvæmni varðar og þess vegna eru ekki gefnar miklar vonir um að við getum lækkað húshitunarkostnað með frekari jarðhitaleit. Við skulum samt sem áður ekki vera úrkula vonar, það kunna að vera þar möguleikar sem menn sjá ekki á þessari stundu og vonandi verður hægt að auka jarðvarmanotkun frekar við húshitun í því skyni m.a. að nýta þessa mikilvægu orkulind og sérstaklega til þess að reyna að lækka húshitunarkostnað.

Í byggðaáætluninni er vikið sérstaklega að öðrum orkugjöfum og í því sambandi er m.a. vísað til þess að frekar eigi að beina sjónum að svokölluðum varmadælum. Um varmadælur hefur talsvert verið fjallað og athuganir verið gerðar á fýsileika á notkun þeirra. Orkusetur á Akureyri hefur t.d. búið til sérstaka kafla á heimasíðu sinni þar sem getur að líta mikinn fróðleik um þessi mál og ástæða til fyrir þá sem hafa áhuga á málaflokknum að skoða það. Á heimasíðunni er þessu m.a. lýst sem svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Varmadælur hafa notið síaukinna vinsælda á norðlægum slóðum þar sem þörf er á upphitun húsa stóran hluta ársins. Í Svíþjóð eru t.d. 95% allra nýbygginga útbúnar varmadælum. Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að húshitun þar sem langstærsti hluti bygginga er hitaður með ódýrum jarðvarma. Um 8% notenda kynda þó hús sín með rafhitun þar sem varmadælur kæmu í sumum tilfellum til greina sem vænlegur kostur til að draga úr orkunotkun.“

Við vitum hins vegar að notkun á varmadælum hefur ekki orðið mjög útbreidd eins og fram hefur komið. Það eru ýmsar ástæður sem valda því, m.a. kostnaður við að kaupa varmadælur, stofnkostnaður er talsverður. Þetta eru tæki sem kosta þó nokkuð og það er þá einfaldlega reikningsdæmi fyrir hvern og einn að átta sig á því hvort mögulegur sparnaður með notkun þeirra vegi upp stofnkostnaðinn. Á þessar dælur eru lögð innflutningsgjöld, það eru tollar, vörugjöld og þess háttar sem gera dælurnar dýrari og sömuleiðis er virðisaukaskattur að fullu innheimtur af þeim, 25,5%. Þetta gerir það að verkum að varmadælurnar eru dýrar og það er auðvitað ein meginástæðan fyrir því að margir hafa hikað við að grípa til þessa úrræðis. Með nýlegum breytingum á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar var að vísu opnað fyrir það að ríkið gæti tekið þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun. Það er sannarlega skref í rétta átt en reynslan hefur sýnt að það hefur ekki dugað.

Því er lagt til í þessu frumvarpi að opnað verði á heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Hugmyndin á bak við það er einfaldlega sú að reyna að gera það áhugaverðara og eftirsóknarverðara fyrir þá sem búa við mikinn húshitunarkostnað að kaupa varmadælur og fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Þó er það í sjálfu sér ekki nóg. Hæstv. fjármálaráðherra hefur síðan í hendi sér að leggja af vörugjöldin og tollana og innflutningsgjöldin og hvaða nafni sem það nefnist sem á þennan búnað eru lögð og ég tel að nauðsynlegt væri að gera það jafnframt því að frumvarpið væri samþykkt. Með því móti mundi kostnaður við varmadælurnar snarlækka og þetta yrði eftirsóknarverður kostur. Við vitum öll að húshitunarmálin eru gríðarlega stór hagsmunamál víða á landsbyggðinni, talið er að um 36–38 þúsund manns búi á hinum svokölluðu köldu svæðum þar sem húshitunarkostnaðurinn er mestur, og þetta gæti verið liður í því að reyna að draga úr þeim mikla tilkostnaði.

Aðalatriðið með þessu er þó það að með því að endurgreiða virðisaukaskattinn og afnema hvers konar innflutningsgjöld væri verið að lækka stofnkostnaðinn og gera þetta eftirsóknarverðara og stuðla þar með að því að lækka húshitunarkostnað í landinu. Þetta væri að sjálfsögðu ekki nóg. Við þurfum eftir sem áður alveg örugglega að halda áfram niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu í þá veru sem ég vonast til að fái brautargengi á Alþingi og komið hefur fram að þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum standa að þeirri þingsályktunartillögu sem er til marks um að hér er um að ræða gríðarlega stórt mál.

Þetta frumvarp er kannski ekki stórt í sniðum í sjálfu sér en það skiptir máli til að lækka húshitunarkostnaðinn. Hinn mikli húshitunarkostnaður er sannkallað böl víða úti á landi og ég trúi ekki öðru en að um þetta mál geti tekist prýðileg samstaða. Þetta er líka hluti af þeirri grænu orkustefnu sem margir hafa talað um á hátíðarstundum. Og ég vek athygli á því að að frumvarpinu standa allmargir þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið fari til hv. efnahags- og skattanefndar og 2. umr.