139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir margt sem hæstv. ráðherra sagði. Hann vakti athygli mína á því að það fjölgaði einungis á landsbyggðinni 2008 þegar hæstv. utanríkisráðherra var starfandi byggðamálaráðherra. (Gripið fram í: Það hrundi nú annað með því.) Já, annað hrundi með en hvað um það.

Menn eiga auðvitað að njóta sanngirni og mér er fullkunnugt um þetta því að þá var ég sveitarstjórnarmaður — (Gripið fram í.) Það var nú þannig, svo að ég klári nú að hæla hæstv. utanríkisráðherra, að hann stóð fyrir mörgum góðum verkefnum um að draga einmitt úr húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að halda líka því til haga sem vel er gert því að nóg er af slæmum verkum sem hæstv. utanríkisráðherra þarf að verja þessa dagana. Það er því mjög mikilvægt að halda góðu verkefnunum frá fyrri árum í öðru ríkisstjórnarsamstarfi til haga. Ég er algjörlega sammála því. (Gripið fram í: … að hafa góða menn með sér.) Það er ekki verra að hafa góða menn með sér í hvaða verkum sem er.

Ég tek líka undir með hæstv. utanríkisráðherra um að þetta er auðvitað bara eitt lítið skref í þá átt að reyna að jafna aðstöðumuninn. Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur hvernig stendur á því að svo mikill munur skuli vera hjá einungis 10% þjóðarinnar. Í því er hrópandi ósamræmi að við kyndum annars vegar með köldu vatni, sem er jú gríðarlega mikil auðlind, og síðan heitu vatni. Allur þessi flutningskostnaður er síðan alveg sérstakt umræðuefni út af fyrir sig og öll sú orka sem tapast. Í þessu er margt óréttlætið sem þyrfti að leiðrétta gagnvart íbúunum á köldu svæðunum. Það er rosalega sláandi að á sama tíma og rafmagnsverð hefur hækkað og kostnaðurinn við að kynda hús úti á köldum svæðum hefur hækkað um 73% hefur kostnaðurinn í raun og veru lækkað um 7% á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir 28% hækkun sl. haust. Þetta er í raun og veru allt sem segja þarf um þetta mál.

Það er gríðarlega mikilvægt að við hættum nú að tala um þetta og förum að gera eitthvað.