139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það var ansi athyglisverð umræða sem átti sér stað áðan þegar hæstv. utanríkisráðherra kom hér upp og var að guma af afrekum ríkisstjórnar þeirrar sem hann sat í árið 2008 (Utanrrh.: Og sínum eigin.) — og sínum eigin. En hæstv. ráðherra gleymdi að nefna það smáatriði að í tíð þeirrar ríkisstjórnar árið 2008 hrundi heilt efnahagskerfi. (Utanrrh.: Bjargaðist samt á landsbyggðinni.) Þrír bankar fóru yfir um með tilheyrandi afleiðingum. Ég held að hæstv. ráðherra ætti (Gripið fram í.) svo sem að rifja upp ýmislegt sem Samfylkingin stóð fyrir í þeirri ríkisstjórn. Við höfum kannski sérstaka umræðu um þá sorgarsögu alla, við erum svo sem ekki búin að bíta úr nálinni í þeim efnum.

Mig langar að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að leggja frumvarpið fram sem og fjölmörgum öðrum þingmönnum sem eru á þessu máli. Ég sé að hér eru þrír framsóknarmenn, hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson. Sjálfur hefði ég gjarnan viljað vera með á þessu máli, mér hefur láðst að láta hv. þingmann fá símanúmerið mitt, með einni hringingu hefði ég sagt já, já, já við að vera á svo góðu máli sem hér um ræðir, vegna þess að þetta er réttlætismál.

Það er réttlætismál að jafna lífskjörin í landinu og eins og ágætlega er farið yfir í frumvarpinu kemur í ljós að hækkun frá árinu 2002 á svæði Rariks vegna húshitunarkostnaðar er hvorki meira né minna en 72%. Það hefði nú einhvers staðar eitthvað heyrst frá þjóðfélagshópum eða hagsmunaaðilum ef svo hrikalega væri vegið að lífskjörum viðkomandi hópa. Við höfum reyndar hér á vettvangi þingsins reynt að vekja athygli á þessum málum. Ég hef spurt hæstv. iðnaðarráðherra ítrekað út í þetta, hvað þeirri vinnu líði að jafna lífskjörin að þessu leyti vegna þess að fólk á köldum svæðum borgar margfalt hærri raforkureikninga en fólk á suðvesturhorni landsins. Þetta er einfaldlega eitthvað sem gengur ekki.

Erum við að tala um einhvern smáhóp í þessu samhengi. Við erum að tala um 34–35 þúsund manns, 10–12 þúsund heimili. Það verður einfaldlega ekki við það unað að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að lækka niðurgreiðslur til þessara svæða með þeim hætti sem fjárlagafrumvarpið fyrir árið í ár kveður upp úr um. Síðan horfum við upp á hæstv. ráðherra koma hingað upp og guma sig af miklum afrekum á sviði byggðamála. Við erum að tala hér um stórt byggðamál og við erum að tala um réttlætismál. Það þýðir ekki fyrir forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna að guma sig af miklum afrekum í þessum efnum þegar við horfum upp á að raforkuverðsreikningar íbúa á landsbyggðinni á köldum svæðum hafa hækkað um 72% frá árinu 2002.

Það er ánægjulegt að sjá hv. þm. Kristján L. Möller hér í salnum, sem er næstur á mælendaskrá. Hann hefur talað fyrir málum sem þessum í gegnum tíðina, hann var í ríkisstjórn og nú er hann í meiri hluta hér á vettvangi þingsins en samt horfum við upp á þá þróun að niðurskurður er á fjárframlögum til að jafna húshitunarkostnað í hinum dreifðu byggðum á köldum svæðum. Ég vona að eftir þessa umræðu muni hv. stjórnarliðar, hvort sem þeir eru hæstv. ráðherrar eða þingmenn, beita sér, ef þeir meina eitthvað með orðum sínum, í að jafna þennan mun. Það er forkastanlegt að horfa upp á þessa þróun. Það er ekki sæmandi nokkurri þjóð að mismuna þegnum sínum með þeim hætti sem hér um ræðir.

Við horfum líka á það, og við þekkjum þá raunasögu alla, hvernig flutningskostnaðurinn hefur vaxið og vaxið þá sérstaklega gagnvart þeim byggðarlögum sem við ræðum hér. Við horfum líka á það að í frumvarpi til fjárlaga, sem var samþykkt fyrir síðustu áramót, voru álögur á eldsneyti hækkaðar enn meira enn eina ferðina. Og hverjir eru það sem þurfa að greiða hlutfallslega mest fyrir afnot af bifreiðum sínum? Það er fólkið á þessum svæðum. Fólk hefur ekki almenningssamgöngur á Vopnafirði, það gengur enginn strætó um þann bæ. Fólk verður einfaldlega að eiga bifreið og allar þessar kostnaðarhækkanir, ofan á það sem við erum að tala um hér, leiða til þess að kaupmáttur fólks á þessu svæði skerðist og þar af leiðandi möguleikar fólks, jafnvel til þess að senda börnin sín til mennta. Það eru ekki framhaldsskólar á öllum þessum svæðum.

Það er einfaldlega ekki líðandi að við horfum upp á þessa þróun og mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra eigi að gera hreint fyrir sínum dyrum, koma hingað upp og biðjast afsökunar á því hvernig þessi þróun hefur verið. Það man enginn eftir því hvað hæstv. ráðherra gerði árið 2008. Fólk spyr í dag: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera árið 2011? Hvað á að gera á þessu ári til að jafna þennan aðstöðumun? Hann er í stjórnmálaflokki sem kennir sig við jöfnuð, Jafnaðarmannaflokkur Íslands er sagt á tyllidögum. Hvar er jöfnuðurinn í þessu og hver hefur þróunin verið? Jú, gapið er alltaf að stækka á milli þeirra sem þurfa að greiða hvað hæsta verð fyrir orkureikninga sína og þeirra sem borga minnst. Það er enginn jöfnuður í þessu, frú forseti.

Ég hvet hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina til að leggja þessu frumvarpi lið, tala ekki einungis fallega í ræðustóli þingsins, um hversu glæsilegt frumvarp þetta sé, heldur láta verkin tala. Það var nú einn stjórnmálaflokkur fyrir nokkrum árum sem hafði göfugt slagorð, mig minnir að við höfum lofað einum 15 þúsund störfum á sínum tíma og við létum verkin tala. Ef þessi ríkisstjórn léti sín verk tala til þess að minnka atvinnuleysið hér væri það þjóðþrifaverk vegna þess að 14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu. Það eina sem hæstv. utanríkisráðherra sér og ríkisstjórnin er að hækka álögur á atvinnulífið þannig að erfiðara verði að fjölga störfum í landinu og hverjar eru afleiðingar þess? Fleiri og fleiri missa atvinnuna. Og hverjar eru afleiðingar þess? Við þurfum að borga milljarðatugi í atvinnuleysisbætur. Ríkisstjórnin hefur með efnahagsstjórn sinni leitt það yfir þjóðina að við erum í mjög hröðum spíral niður á við, því miður. Þessi ríkisstjórn sér ekkert nema skattahækkanir, það er eina lausnin.

Hér er aftur á móti lögð til skattalækkun til handa fólki sem hefur verið skattpínt og ekki síst með gjöldum, raforkugjöldum, á undangengnum árum. Hér er kveðið á um að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Sú aðgerð mundi leiða það af sér að til lengri tíma litið mundi ríkissjóður hagnast verulega því að kostnaður ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði mundi lækka. Maður hlýtur að kalla eftir framtíðarsýn hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að máli eins og þessu. Og maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju er ekki fyrir lifandis löngu búið að gera þetta?

Ég vil minna Samfylkinguna á að hún hefur verið í ríkisstjórn í fjögur ár, hún er ekkert kornabarn í þessum efnum. En ég man eftir því, hafandi setið þá hér á þessum tíma, að þingmenn Samfylkingarinnar hafa komið hingað upp trekk í trekk og talað mjög fallega um að nú eigi að gera hitt og þetta til jöfnunar og til að bæta hag þeirra sem hvað verst standa í samfélaginu. En efndirnar verða eiginlega engar, því miður.

Ég veit að hæstv. ráðherra mun koma hingað upp á eftir og væntanlega mun hann guma af afrekum Samfylkingarinnar á þessu sviði á undangengnum árum. En eins og ég hef rakið hér hefur þvert á móti sigið á ógæfuhliðina. Rekstrarkostnaður fjölskyldna á köldum svæðum til að hita upp húsið sitt — hugsið ykkur — hefur vaxið um 72% frá árinu 2002. Ég veit því ekki hvernig hæstv. ráðherra ætlar að fara að guma sig af glæsilegum árangri hafandi verið í ríkisstjórn í fjögur ár í þessum málaflokki. Árangurinn er enginn og þó teldist það nokkuð gott að hann væri enginn vegna þess að hann er minni en enginn. Fólk borgar miklu hærri gjöld vegna húshitunar og það er óásættanlegt í því árferði sem hér ríkir.

Ég vil, frú forseti, að lokinni þessari ræðu lýsa því yfir að við framsóknarmenn styðjum það heils hugar að skattafsláttur verði veittur vegna kaupa á varmadælum. Ég vil líka minna á að í tíð Framsóknarflokksins voru niðurgreiðslur til kaldra svæða auknar stórlega. En á síðustu árum hafa þær lækkað jafnt og þétt sem hefur leitt það af sér að raforkureikningar fólks á köldum svæðum hafa hækkað um 72%. Frú forseti, þvílíkur árangur.