139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt tilefni fyrstu ræðu minnar, sem hv. þingmaður hlustaði kannski ekki á, að ræða það hve staða íbúa hinna köldu svæða er erfið og hve nauðsynlegt er að taka á því. Eins og ég sagði hefur hún líka versnað.

Hv. þingmaður spurði mig hvort ég hefði komið á hin köldu svæði. Ég lenti í Reykjavík fyrir klukkutíma og hafði þá meðal annars verið á köldum svæðum í kjördæmi hv. þingmanns. Hv. þingmaður verður að skilja (Gripið fram í.) að hann getur ekki komið hingað og kastað skít með þeim hætti sem hann gerði án þess að búast við því að bent sé á það hvaðan sá aur er upprunninn. Hann er að verulegu leyti, eins og staðfest er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, upprunninn í flór og fjóshaug Framsóknarflokksins, þó við í þessum sal séum nú endranær ekkert að núa flokknum því um nasir vegna þess að menn vilja heldur vera í málefnalegri umræðu. Ef (Gripið fram í.) þingmaðurinn færir þetta niður á það plan sem hann gerði verður hann að búast við því að hann verði hirtur með nákvæmlega sömu aðferðum og hann reynir að beita á aðra. Ef hv. þingmaður vill fara í það að rifja upp hvað það var sem leiddi til ófarnaðar í íslensku þjóðarinnar árið 2008 er því bara nákvæmlega vel lýst.

Ég skal fyllilega gangast við því að hafa verið í ríkisstjórninni sem tók við 2007 og gangast við því líka að sú ríkisstjórn hefði mátt standa sig betur, það er alveg hárrétt. Það breytir ekki hinu að rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að eftir mitt ár 2006 hefði ekkert verið hægt að gera, (Gripið fram í: Jú, jú.) það segir hún. Hverjir voru þá í ríkisstjórn? Jú, það var Framsóknarflokkurinn meðal annars og forustumenn hans. Það kemur skýrt fram í rannsóknarskýrslunni að það var stefna Framsóknarflokksins umfram annað sem olli þessu og ekki síst stefnan varðandi húsnæðislánin sem hleypti hér öllu í bál og brand. Hvaðan kom það? Beint úr smiðju Framsóknarflokksins. Hv. þingmaður verður bara að vera maður til að horfast í augu við það fyrst hann á annað borð kýs að taka þetta (Forseti hringir.) til umræðu hér.