139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að rétt sé að hafa sérstaka umræðu um hvernig sagan er og hvernig hæstv. utanríkisráðherra reynir að endurskrifa söguna. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þegar lög um húsnæðismál voru afgreidd á sínum tíma hér á vettvangi þingsins vildi Samfylkingin ganga lengra í húsnæðislánum, rýmka heimildir og fleira. Hver var þar í broddi fylkingar? Hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Þannig að ef Samfylkingin hefði verið þá við völd hefði hún gengið lengra í þeim efnum. Ég hafna því algjörlega þeim áburði sem hv. þingmaður er að reyna að varpa á Íbúðalánasjóð og þá húsnæðisstefnu sem hér hefur verið uppi.

Í annan stað vil ég rifja það upp, af því hæstv. ráðherra er kominn í þessa sögulegu upprifjun, að það var á vakt Samfylkingarinnar í ríkisstjórn að Icesave-reikningarnir voru opnaðir í Hollandi. Það var á (Gripið fram í.) vakt Samfylkingarinnar sem Icesave-samningarnir í Bretlandi tútnuðu út og það var á vakt Samfylkingar sem þáverandi hæstv. ríkisstjórn vildi borga 500–600 milljarða kr. út af Icesave-klúðri Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Það þurfti nú aldeilis að taka sig á til þess að koma í veg fyrir að Samfylkingin beinlínis, með því að samþykkja þann samning, setti ríkissjóð á hausinn.

Við erum að tala um það hér að 1 milljarður, eða 900 milljónir, fer til þessara köldu svæða á ári. Hvað er það í samhengi við 500 milljarða kr. klúður Samfylkingarinnar í Icesave-málinu? Það eru ekki nokkrar einustu upphæðir.

Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra hafi kjark til þess að koma hér upp, eftir að hafa verið fjögur ár í ríkisstjórn sem hefur klúðrað ótrúlega mörgum málum, berja sér á brjóst og segja að allt hafi verið öðrum að kenna.