139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, karpið heldur áfram og það verður þá að taka á því vegna þess að ekki er hægt að láta varaformann Framsóknarflokksins enda á því að fara með svo rangt mál eins og hann gerði.

Ég skal rifja það upp og segja það einu sinni enn. Þegar við komum í ríkisstjórn sumarið 2007 eftir kosningar var búið að vinna fjárlög og svo gott sem klára þau og átti ekkert eftir nema að stimpla þau og ganga frá. (Gripið fram í.) Þar var það sem við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson rákum augun í að leggja átti niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Við gerðum strax athugasemdir við það (Gripið fram í.) og spurðum hvar ákvörðunin hefði verið tekin. (BJJ: Það var lagt fram …) Það var sagt skýrt og skilmerkilega af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, að sú ákvörðun hefði verið tekin við undirbúning fjárlaga hjá þeirri ríkisstjórn sem var að fara frá. Síðan er það rétt að frumvarpið kom fram. (Gripið fram í: Já.) En hver var það sem hætti við að leggja fram frumvarpið og dró það til baka? Hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, með stuðningi allra samfylkingarmanna sem þar voru inni. Það var hætt við að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara sem Framsóknarflokkurinn ætlaði sér að leggja niður. Þetta eru staðreyndir. (Gripið fram í.)

Varðandi olíugjaldið þá er það í fyrsta skipti í tíð þessarar ríkisstjórnar sem olíugjald vegna flutningabíla og annarra hefur ekki hækkað eins og allt annað í þeim vörum. Það var stigið skref í því á síðasta ári í tíð núverandi ríkisstjórnar. Og síðan er kannski það merkilegasta sem hefur gerst og kannski það eina í lækkun flutningskostnaðar. Við getum tekið sem dæmi um lækkun flutningskostnaðar vestur á firði ákveðnar samgöngubætur sem er þverun Mjóafjarðar og Arnkötludalsleiðin. Í framhaldi af því lækkuðu flutningsgjöld til Vestfjarða um 15–20%. Það væri kannski markverðast að gera, að stytta vegalengdir og bæta vegi meðan við erum í þeirri krísu sem við erum í í dag þegar við höfum ekki peninga í ríkissjóði til að leggja í hefðbundna niðurgreiðslu (Forseti hringir.) sem væri auðvitað sanngjarnast.