139. löggjafarþing — 79. fundur,  24. feb. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

541. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég vísaði í áðan þegar við greiddum atkvæði um afbrigði, eins og fram kom hjá hv. þm. og formanni hv. viðskiptanefndar, Lilju Mósesdóttur, er hér um afmarkaðan þátt málsins að ræða. Við höfum ekki lokið því. En ég vil hins vegar nota tækifærið vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að hv. þingmenn séu meðvitaðir um hvaða mál eru á ferðinni. Það sem um er að ræða er eftirfarandi: Verið er að innleiða í lög breytta tilskipun Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar. Ástæðan fyrir því að við erum í þessum Icesave-vandræðum er hin gallaða tilskipun Evrópusambandsins. Gert var ráð fyrir því að við ættum að koma á kerfi sem ætti að ábyrgjast innstæður að lágmarki 20.887 evrur. Lausn Evrópusambandsins við þeim vanda var sú að hækka lágmarkstrygginguna í 100.000 evrur. Það þýðir í íslenskum krónum úr u.þ.b. 3 millj., ef ég man rétt, í 15 eða 16 millj. kr. á hvern reikning. Innstæður á Íslandi eru á milli 1.500 og 1.600 milljarðar kr. Það er rúmlega þjóðarframleiðsla. Sérstaða okkar gagnvart öðrum löndum er að í stærri og fjölmennari ríkjum eru margar fjármálastofnanir, miklu fleiri en hér. Hér erum við með þrjár stórar fjármálastofnanir sem í eru upp í 80% af innstæðunum, þær gætu orðið færri. Öll tryggingakerfi byggjast á því að áhættunni er dreift. Varðandi þetta innstæðutryggingarkerfi er gengið út frá því að fjármálastofnanir séu nokkur hundruð eða þúsund, þess vegna geta svona kerfi þolað það ef ein eða tvær fjármálastofnanir falla á einhverju árabili.

Útreikningarnir sem sýndir hafa verið í hv. viðskiptanefnd sýna að uppsöfnun til að greiða innstæður fyrir einn af þessum bönkum tekur u.þ.b. heila öld — heila öld. Önnur breyting á tilskipuninni og þar af leiðandi lögunum er ekki bara að lágmarkstryggingin sé hækkuð heldur er líka hert á orðalagi sem við þurfum að vera mjög vakandi yfir. Þar er sagt að tala eigi um — ég þýði það jafnóðum eftir ábendingar frá virðulegum forseta — að hvert land eigi að koma á kerfi og nota enska orðalagið „we shall stipulate“, að við, þ.e. hið opinbera, eigum að tryggja að sjóðurinn sé alltaf fjármagnaður. Það er mjög stutt á milli þess að kerfið sé alltaf tryggt, þ.e. að fjármögnunin sé tryggð, og ríkisábyrgðar.

Það er að vísu ýmislegt til bóta í tillögunum og hv. viðskiptanefnd hefur gert margt vel í þeim breytingum sem nú þegar hafa komið inn, ég geri ekki lítið úr því. En ég hef í fjölmörgum ræðum, bæði í þingsal og í hv. viðskiptanefnd, reynt að vekja athygli þingmanna á stærð málsins og alvarleika. Við höfum ekki sömu afsökun og þeir hv. þingmenn sem voru hér 1999 og samþykktu lögin með fyrri tilskipun, þeir vissu ekki um þær gloppur og hættur sem voru þar, ég held að við getum fullyrt það. Við vitum svo miklu meira um bankakerfið núna, um þær hættur sem eru til staðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég kem hér fyrst og fremst fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna til að vekja athygli á þessu því að ég vil að allir hv. þingmenn séu meðvitaðir um hvað er á ferðinni og að við séum samtaka í því að búa ekki til kerfi sem getur komið okkur í sambærileg vandræði og við fórum í gegnum. Sú hætta er til staðar. Hér hins vegar er um það að ræða að fresta inngreiðslum í sjóðinn um þrjá mánuði vegna þess að meiri hlutinn vill hafa svigrúm til að fara betur yfir málið. Hann er með hugmyndir um deildaskiptingu sjóðsins, sem eru líka umdeildar og við þurfum að fara betur yfir. Við höfum veitt meiri hlutanum og hæstv. ríkisstjórn ákveðið svigrúm þar en það þýðir ekki að við samþykkjum það. Við munum sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu.