139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Alþingi getur hvenær sem er hafið vinnu við endurskoðun á stjórnarskránni. Á undanförnum árum hefur sú vinna verið í gangi. Um nokkurra missira skeið var að störfum sérstök nefnd sem endurskoðaði stjórnarskrána og ég sé fyrir mitt leyti nauðsyn þess að gera breytingar á henni um ýmsa þætti sem snúa að því að styrkja almannaeign á náttúruauðlindum, tryggja aðkomu þjóðarinnar að þjóðaratkvæðagreiðslum sem ég tel afar brýnt að gera.

Varðandi það hvernig eigi að snúa sér vegna úrskurðar Hæstaréttar um að ógilda niðurstöðu í stjórnlagaþingskosningu er ég þeirrar skoðunar að besti kosturinn væri að kjósa alveg upp á nýtt, gera það í haust eða að ári. Annar kostur sem ég hef lýst mig fylgjandi er að ráðast fljótlega í svokallaða uppkosningu, en ég er algerlega ósammála þeirri tillögu sem er á vinnsluborði núna um að breyta stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð eða -nefnd. Ég hef sagt, gerði það í upphafi þegar ég lýsti því hve mjög ósáttur ég væri við niðurstöðu Hæstaréttar, að úrskurði Hæstaréttar ætti að hlíta til hins ýtrasta og vildi ég enga skemmri skírn í því efni. Þess vegna leggst ég gegn þessari tillögu en legg áherslu á eitt, þetta er ekki í mínum huga mál milli ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og stjórnarmeirihluta annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar, þetta er mál sem kemur af vinnsluborði þingmannanefndar, vinnunefndar, (Forseti hringir.) og er síðan þingsins að taka ákvörðun um.