139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mér þótti hæstv. ráðherra á sínum tíma ganga fulllangt í gagnrýni sinni á forsendur dómsins en eitt má hann þó eiga, það að hann vill hlíta niðurstöðunni, og þó það nú væri, hann er yfirmaður dómsmála í landinu. Það sem hefur algerlega skort í umræðuna um stjórnlagaþing, stjórnlagaráð og þjóðaratkvæðagreiðslur sem nauðsynlegan aðdraganda þess að við á þinginu breytum stjórnarskránni er umræðan um það hvað hefur gerst frá því að þessar hugmyndir komu fyrst fram.

Við skipuðum sérstaka undirbúningsnefnd fyrir hið væntanlega stjórnlagaþing sem ekkert verður úr og við héldum hér líka þúsund manna þjóðfund með fólki á öllum aldri og alls staðar að af landinu. Þau gögn sem úr þessari vinnu komu ásamt því sem gerðist á vegum stjórnarskrárnefndarinnar sem starfaði frá 2005–2007 eru fullnægjandi grundvöllur fyrir þingið til að hefja vinnuna nú þegar. (Forseti hringir.) Menn verða að fara að sjá það í umræðunni um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni að við höfum allt sem þarf til að hefjast strax handa. Það þarf ekki að bíða lengur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur (Forseti hringir.) misst tvö ár af þessu kjörtímabili án þess að við tækjum málið almennilega á dagskrá á þingi.