139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kynning vegna þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í tengslum við búsáhaldabyltinguna svokölluðu kom fram á sjónarsviðið ótölulegur fjöldi einstaklinga sem hafði sitthvað fram að færa um lögfræðileg efni, um hagfræðileg efni, án þess að menn hefðu prófgráður upp á vasann. Mjög lífleg og oft og tíðum djúp umræða fór fram í þjóðfélaginu og fjölmiðlarnir voru þegar á heildina er litið opnir fyrir þessu. Þetta er það sem þarf að gerast núna. Ég er enn þeirrar skoðunar að kynningarstarfið eigi að uppistöðu til að fara fram í opinni frjálsri umræðu í útvarpsstöðvum, í sjónvarpsstöðvum, í dagblöðum, á netmiðlum og þar fram eftir götunum.

Þá er spurningin: Hvað gera stjórnvöld, hver er skylda stjórnvalda? Hún er annars vegar lögbundin, og það er eins og hv. þingmaður vísaði til, það er lögbundið að senda frumvarpið eða þingmálið sem um er að ræða til allra landsmanna þannig að þeir sjái það. Þar lýkur lagaskyldunni.

Svo er hitt: Hvað á að gera meira en þetta? Það er mjög vandmeðfarið. Ég er ósammála því að auðveldlega sé hægt að setja fram kynningarefni, það er ekki til neitt í mínum huga sem heitir fullkomlega óháð stofnun vegna þess að þetta eru umdeild efni sem byggja að hluta til á líkindum og vangaveltum og virða þarf málið sem slíkt. Við höfum ekki blásið það út af borðinu, alls ekki, að gefa út eitthvert slíkt efni en það verður aðeins (Forseti hringir.) gert að mjög yfirveguðu ráði. Ég get bent hv. þingmanni á að ég hef fengið óskir (Forseti hringir.) og kröfur um að setja fram kynningarefni (Forseti hringir.) um tiltekin atriði og þar stangast margt á.