139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

Byggðastofnun.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Milljarðar á milljarða ofan hafa tapast í lánastarfsemi Byggðastofnunar. Það er eðlilegt að hjá skattgreiðendum vakni ýmsar spurningar, t.d. hvort rétt sé að ríkið standi í lánastarfsemi af þessu tagi. Ef svo er, hvort vel hafi verið að henni staðið og ef svo er hvaða rannsóknir hafi farið fram sem sýni fram á að svo sé.

Núverandi hæstv. iðnaðarráðherra er í þeim sporum að hafa tekið þennan útlánavanda Byggðastofnunar í arf og hefur áður gert okkur grein fyrir því hvernig hún vinnur að því að leysa úr þeim vanda sem hún tók við. Ég held að nú, þegar ársreikningur stofnunarinnar liggur fyrir með þessum upplýsingum, sé mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hvar á vegi sú vinna er stödd og eðlilegt að spyrja ýmissa spurninga, m.a. hvort — ef við ætlum að haga lánastarfsemi með þessum hætti — ekki sé eðlilegt að gera sömu hæfiskröfur til stjórnarmanna í þeirri stofnun og í öðrum fjármálastofnunum og hafa jafnvel óháð val á stjórnarmönnum, hvort fréttir af umfangsmikilli lánastarfsemi fyrr á árum á vegum Byggðastofnunar til fjármálastofnana á landsbyggðinni, ýmissa sparisjóða, sé eðlilegur hluti af byggðastarfseminni í landinu. Sömuleiðis hvort sá milljarður sem gert er ráð fyrir á fjárlögum á yfirstandandi ári til að mæta þessum uppsafnaða vanda nægi. Og að öðru leyti hvernig hæstv. ráðherra vegnar í því erfiða verki að vinna úr þeim vanda sem hún tók við.