139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

Byggðastofnun.

[15:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og þá vinnu sem hefur verið lögð í þetta að undanförnu. Ég held að mikilvægt sé að fá fram tillögur þeirrar nefndar sem er að störfum en um leið er mikilvægt að við ræðum þetta mál pólitískt. Ég vil lýsa því sem sjónarmiði mínu að það sé miklu affarasælla að taka meðvitaðar pólitískar ákvarðanir um það á Alþingi að verja tilteknum fjármunum til tiltekinna verkefna í byggðamálum, til atvinnustarfsemi og annars slíks. En sá háttur sem við höfum tekið í arf, að ganga langt í lánastarfsemi og veita þannig fjármuni, þ.e. fjármuni sem aldrei fást endurheimtir, og þurfa síðan að afskrifa það með reglulegu millibili er aldeilis ómögulegt vegna þess að þessir 10 milljarðar sem tapast hafa í útlánastarfsemi Byggðastofnunar (Forseti hringir.) — við hefðum ráðstafað þeim á allt annan hátt ef við hefðum bara ráðstafað þeim beint sem eiginfjárframlögum eða til styrkja við byggðirnar í landinu.