139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

Byggðastofnun.

[15:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í því að þetta er pólitískt viðfangsefni. Þess vegna erum við núna komin á þann stað að allir flokkar á Alþingi hafa tilnefnt fulltrúa í þá nefnd sem er að taka málið til lokaskoðunar og taka þar með ákvörðun um með hvaða hætti við ætlum að halda úti stuðningi við atvinnuþróun á landsbyggðinni. Við megum heldur ekki gleyma því að Byggðastofnun og lánastarfsemi hennar hefur skipt gríðarlega miklu máli í því að færa fjármuni inn á efnahagslega köld svæði þar sem hefur verið pólitískur þrýstingur og pólitískur vilji til að halda úti byggð. Þar hefur hún gegnt hlutverki og við getum ekki skilið þau svæði eftir algjörlega án svara. Þess vegna verðum við að horfa mjög til þess hvernig við ætlum að halda áfram að styðja við þau svæði og það erum við að gera núna.

Það hefur oft staðið pólitískur styr um málefni Byggðastofnunar og ég held að núna sé komið að leiðarlokum í þeim debatt, (Forseti hringir.) ef svo má að orði komast, og það er skylda okkar allra hér inni að finna farsæla og endanlega lausn á þessum málum.