139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Olíunotkun er tiltölulega mikil á Íslandi enda þótt við þurfum sem betur fer ekki að nota olíu til að hita húsin eða vatnið. Olíuverðshækkanir hafa því mikil áhrif hér á landi, minnka kaupmátt til annarra þarfa og hækka allan tilkostnað. Þess vegna er eðlilegt að skoða vel hvernig álögur ríkisins breytast þegar innkaupsverð og smásöluverð á olíu hækkar og ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra um fyrirhuguð viðbrögð ríkisstjórnar.

En það er líka nauðsynlegt, frú forseti, að kanna af hverju engar verðbreytingar verða hér á landi þegar olíuverð lækkar úti í heimi. Kannski er kominn tími til að setja af stað nýja olíuverðlagsnefnd til að skoða þau mál vandlega. Það er mikilvægt að bregðast hart við til lengri tíma litið og það vill svo til að við Íslendingar höfum einstaklega góðar aðstæður til þess. Ef við viljum getum við unnið að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi af hólmi innflutta olíu í samgöngum okkar og í fiskiskipaflotanum. Ávinningurinn af því yrði margþættur. Við mundum spara gjaldeyri, við mundum nýta það sem við höfum og eigum í landinu, skapa hér vinnu og draga úr mengun af völdum útblásturs og þar með skaðlegum loftslagsbreytingum.

Ég nefndi fiskiskipin og það er löngu tímabært, frú forseti, að gerð verði sérstök áætlun um að draga úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi. Í samgöngum eru tækifærin margháttuð og við þurfum að beina enn frekar notkun inn á innlenda orkugjafa, einkum metan og rafmagn. Ég vil leyfa mér á þessum örstutta tíma að minna á þingsályktunartillögu, 251. mál þingsins, frá Arndísi Soffíu Sigurðardóttur o.fl. um það efni. Við þurfum líka eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi að auka hlut almenningssamgangna og ýta undir markvissa uppbyggingu þeirra um allt land.

Ég vil loks nefna mat á raunkostnaði við flutning á sjó, landi og í lofti og enn fremur á raunkostnaði við hráefnisflutninga um þjóðvegi landsins, landshlutana á milli. (Forseti hringir.) Verkefnin eru næg, það er bara að (Forseti hringir.) ganga í þau.