139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[16:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir innlegg þeirra í þessa umræðu. En ég verð um leið að lýsa yfir miklum vonbrigðum. Þingmenn hafa, hver á fætur öðrum, notað tíma sinn til að tala um langtímaaðgerðir í orkumálum og hafa algjörlega svikist um að tala um það sem við erum að fjalla um hér, þ.e. sá alvarlegi vandi sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Ég get alveg verið sammála því að til langs tíma litið er hægt að gera margt til að forðast að lenda í jafnmiklum vanda og við erum í vegna orkuverðsins. En það eru ekki lausnir sem duga til að bæta ráðstöfunartekjur heimilanna í dag og ýta í burtu neikvæðum hagvaxtaráhrifum vegna hækkandi orkuverðs.

Mér fannst hæstv. ráðherra í raun nálgast þessa umræðu af mestu skynseminni, getum við sagt, og ég þakka honum kærlega fyrir þá mynd sem sýnir það að á rétt um ári hafa vörugjald og kolefnisgjald á bensín hækkað úr 46 kr. upp í 66 kr. Og svo hefur virðisaukinn komið ofan á það þannig að sú hækkun er mun meiri og skapar einmitt þann vanda sem við erum að tala hér um í dag. En ráðherrann reyndi í engu að svara þeirri spurningu, fyrir utan að tala um að vísa málinu í nefnd, hvernig takast eigi á við þann mikla skammtímavanda sem við stöndum frammi fyrir vegna hás orkuverðs. Hvernig verður tekist á við þau neikvæðu hagvaxtaráhrif sem þetta orkuverð hefur í för með sér og hvernig verður tekst á við lækkandi ráðstöfunartekjur?

Þegar verið er að bera saman verð á bensíni og dísilolíum á milli landa hefði verið mjög æskilegt að bera saman kaupmáttarleiðréttar tölur. Það er ljóst að kaupmáttur á Íslandi, miðað við þau lönd sem hér eru talin upp, er mun minni en áður var og þess vegna (Forseti hringir.) hefur hækkandi orkuverð alvarlegri áhrif í för með sér.